Enski boltinn

Rebec­ca Welch fyrst kvenna til að dæma í ensku úr­vals­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rebecca Welch hefur átt gott ár.
Rebecca Welch hefur átt gott ár. EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Þann 23. desember mun Rebecca Welch skrá sig í sögubækur ensku úrvalsdeildarinnar. Hún verður þá fyrsta konan til að dæma leik í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu.

Hin fertuga Welch hóf að dæma árið 2010 og varð í janúar á þessu ári fyrsta konan til að dæma í Championship-deildinni eða ensku B-deildinni. Í nóvember var hún fjórði dómari þegar Fulham tók á móti Manchester United en á á Þorláksmessu mun hún flauta leik Fulham og Burnley.

Þá hefur verið gefið út að Sam Allison muni dæma leik Sheffield United og Luton Town þann 26. desember. Hann verður fyrsti svarti dómari deildarinnar síðan Uriah Rennie dæmdi síðast í ensku úrvalsdeildinni árið 2008.

„Þetta eru mikilvæg augnablik fyrir Rebeccu og Shaw en bæði eru dómarar sem búa yfir gríðarlegum gæðum. Þau eiga tækifæri sín svo sannarlega skilið,“ sagði Howard Webb, yfirmaður dómaramála á Englandi.

Í júlí á þessu ári opinberaði enska knattspyrnusambandið að það stefndi á að auka fjölbreytni dómara á Englandi. Þegar kemur að dómgæslu í atvinnumannadeildum Englands eru 97 prósent dómara hvítir og vill enska sambandið breyta þeirri staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×