Enski boltinn

Segir svikara í her­búðum United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester United hefur tapað tveimur leikjum í röð.
Manchester United hefur tapað tveimur leikjum í röð. getty/Clive Brunskill

Andy Cole, fyrrverandi leikmaður Manchester United, telur að það sé svikari í leikmannahópi liðsins og hann komi í veg fyrir að liðið geti tekið skref fram á við.

Undanfarnar vikur hafa borist fréttir um óánægju leikmanna United með Erik ten Hag, knattspyrnustjóra liðsins. Þeir ku vera ósáttir við upplegg hans í leikjum og of mikið æfingaálag. Cole er handviss um að einhver í leikmannahópi United leki upplýsingum í fjölmiðla.

„Það hlýtur að vera svikari? Ekkert lekur úr góðum búningsklefa, sama hvað hefur gengið á. Leikmönnum og þjálfurum sinnast. Það gerist í fótbolta. En ef klefinn er góður heyrir enginn af því,“ sagði Cole.

„Upplýsingar leka svo reglulega hjá United og það myndi ekki gerast ef klefinn væri sameinaður. Upplýsingar leka þegar hlutirnir ganga ekki vel. Sumir leikmenn eru ekki sáttir með spiltímann sinn, gengi liðsins og sína eigin spilamennsku. Allt sem kemur úr þessum klefa er neikvætt, það hjálpar ekki liðinu og hindrar það í að taka skref fram á við.“

United féll út úr Meistaradeild Evrópu eftir 0-1 tap fyrir Bayern München á þriðjudaginn. Næsti leikur liðsins er gegn Liverpool á Anfield á sunnudaginn. United er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Liverpool á toppi hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×