Fótbolti

Tuttugu kílóum léttari eftir 26 daga í dái en stefnir á endur­komu

Siggeir Ævarsson skrifar
Sergio Rico stefnir á endurkomu eftir að hafa verið nær dauða en lífi í vor
Sergio Rico stefnir á endurkomu eftir að hafa verið nær dauða en lífi í vor Vísir/Getty

Sergio Rico, varamarkvörður PSG, segist stefna ótrauður á endurkomu en Rico var 26 daga í dái og 36 daga á gjörgæslu í vor eftir að hafa lent í alvarlegu slysi á hestbaki.

Rico var í útvarpsviðtali í heimalandi sínu á Spáni á dögunum þar sem hann sagðist vera óðum að ná sér og hann ætlaði sér að spila knattspyrnu á ný. Sjúkrahúsdvölin í vor hafi þó tekið sinni toll þar sem Rico horaðist hratt meðan hann var í dái og svo á gjörgæslu.

„Ég missti 20 kg. Ég var um 92 kg en var svo um 73. Nú er ég kominn í 88 kg.“

Hann sagðist þó enn taka því rólega að læknisráði.

„Ég tek því of rólega, en ég stjórna þessu ekki. Ef ég mætti ráða væri ég byrjaður að æfa. Ég fylgi ráðleggingum læknanna, þeirra sem stjórna ferlinu og þeirra sem björguðu lífi mínu.“

Svo til engu mátti muna að Rico léti lífið í slysinu en ef áverkar hans hefðu verið um hálfum sentimeter dýpri hefði hann látist samstundis.

Rico, sem er 30 ára, var aðalmarkvörður Sevilla til fjögurra ára en hefur síðustu ár verið varamarkvörður Paris Saint-Germain.


Tengdar fréttir

Minnstu munaði að Rico hefði látið lífið

Sergio Rico, markvörður París Saint-Germain, var hársbreidd frá því að láta lífið eftir að falla af hestbaki í maí síðastliðnum. Enn er óvíst hvort hann geti snúið aftur á völlinn en hann fær þó bráðlega að halda heim á leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×