Í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að lögskipuð hæfnisnefnd sem meti hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana hafi metið Lúðvík hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu.
„Lúðvík er viðskiptafræðingur með M.Sc gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og leggur stund á nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands með áherslu á mannauðsstjórnun. Síðastliðin fjögur ár hefur Lúðvík gegnt stöðu rekstrarstjóra hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Áður starfaði hann m.a. hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem hann stýrði greiningasviði á einu af þremur kjarnasviðum embættisins. Hann var um tíma framkvæmdastjóri vátrygginga og staðgengill forstjóra hjá European Risk Insurance Company í Englandi. Um árabil var hann forstöðumaður vátrygginga og áhættumats hjá Actavis Group hf. og þar áður forstöðumaður fimmtán útbúa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um allt land.
Í mati hæfnisnefndar er lögð áhersla á fjölþætta og langvarandi reynslu Lúðvíks af rekstri og áætlanagerð. Enn fremur hafi hann langvarandi reynslu á sviði stjórnunar, stefnumótunar og mannauðsstjórnunar og hafi auk þess góða innsýn í stjórnsýslu. Það er mat nefndarinnar að Lúðvík sé góður leiðtogi og vel hæfur til að gegna embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða,“ segir í tilkynningunni.