Enski boltinn

Fær nýjan samning þrátt fyrir að hafa slitið kross­band ný­lega

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sam Kerr í leik með Chelsea.
Sam Kerr í leik með Chelsea. Gaspafotos/Getty Images

Stormsenterinn Sam Kerr hefur framlengt samning sinn við Englandsmeistara Chelsea til 2025 hið minnsta. Tímasetningin vekur athygli en stutt er síðan Kerr sleit krossband í hné og ljóst að hún spilar ekki meira á þessari leiktíð.

Hin þrítuga Kerr hefur skorað 99 mörk í 128 leikjum fyrir Chelsea. Hún fer undir hnífinn á næstu dögum eftir að hafa slitið krossband í hné þegar hún var við æfingar í Marokkó á meðan jólafrí var í ensku deildinni.

Kerr hefur verið að glíma við ýmis meiðsli á síðustu mánuðum og náði til að mynda ekki að spila alla leiki Ástralíu á HM síðasta sumar. Þá hafði hún misst af leikjum með Chelsea á leiktíðinni.

Það breytir því ekki að Kerr er lykilmaður í liði Chelsea og einn besti leikmaður heims um þessar mundir. Er hún meðal tíu bestu að mati The Guardian sem tekur árlega saman 100 bestu leikmenn heims í karla- og kvennaflokki.

Nú hefur DAZN, rétthafi Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu, greint frá því að Kerr hafi fengið nýjan samning hjá Chelsea en núverandi samningur hennar átti að renna út næsta sumar. Ekki hefur verið staðfest hversu langur samningurinn er en hann er sagður vera til sumarsins 2025 hið minnsta.

Chelsea trónir á toppi deildarinnar í Englandi með 25 stig að loknum 10 leikjum. Þar á eftir koma Manchester City og Arsenal með þremur stigum minna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×