Hinn 86 ára gamli séra Franco Reverberi var prestur í argentínska hernum og er sakaður um að hafa tekið þátt í morðinu á 20 ára aðgerðasinnanum José Guillermo Berón árið 1976 ásamt því að hafa pynt hann.
Guardian greinir frá því að Franco sé með argentínskan og ítalskan ríkisborgararétt og hafi yfirgefið heimaland sitt í kjölfar þess að argentínsk yfirvöld hófu réttarhöld yfir mörgum liðsinnum herforingjastjórnarinnar. Síðan þá hefur hann búið í borginni Parma og þvertekur fyrir að eiga þátt í málinu. Vatíkanið hefur ekki tjáð sig um málið né bannfært hann.
Í gær beitti Carlo Nordio dómsmálaráðherra Ítalíu neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að Franco verði framseldur og segir aldur hans og heilsu vera helstu ástæðurnar fyrir því. Margir sem sakaðir eru um glæpi í störfum sínum fyrir herforingjastjórnina hafa flúið til Ítalíu vegna þess hvað margir Argentínumenn eru af ítölskum uppruna eða með ítalskt ríkisfang.