Enski boltinn

Eng­lendingar vilja tryggja sér nýju spút­nik­stjörnuna hjá Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungu strákarnir hjá Manchester United, Rasmus Hojlund, Alejandro Garnacho og Kobbie Mainoo, fagna hér marki á dögunum. Hojlund er Dani, Garnacho er Argentínumaður og Mainoo gæti spilað fyrir Gana.
Ungu strákarnir hjá Manchester United, Rasmus Hojlund, Alejandro Garnacho og Kobbie Mainoo, fagna hér marki á dögunum. Hojlund er Dani, Garnacho er Argentínumaður og Mainoo gæti spilað fyrir Gana. Getty/Clive Brunskill

Gareth Southgate, þjálfari enska fótboltalandsliðsins, er sagður vilja tryggja það að Manchester United strákurinn Kobbie Mainoo spili fyrir enska landsliðið í framtíðinni.

Mainoo er bara átján ára gamall en fékk tækifærið inn á miðju Manchester United á miðju tímabili og hefur staðið sig mjög vel.

Englendingar gætu þurft að gefa honum sem fyrst tækifæri með A-landsliðinu í keppnisleik því Gana hefur einnig mikinn áhuga á því að hann spili fyrir þeirra landslið.

Kobbie Mainoo byrjaði sinn tíunda leik í röð þegar United vann 2-1 sigur á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Mainoo hefur vissulega spilað fyrir öll yngri landslið Englendinga en foreldrar hans eru báðir fæddir í Gana og hann gæti því valið það að spila fyrir landslið Gana.

Samkvæmt heimildum ESPN þá hefur Southgate mikla trú á Mainoo og vill hraða því að taka hann inn í A-landsliðið til tryggja það að hann spili fyrir England í framtíðinni.

Englendingar spila fjóra leiki fyrir EM í sumar, þar á meðal einn á móti Íslandi, en enginn þeirra er keppnisleikur. Southgate gæti því mögulega þurft að velja Mainoo í 23 manna EM-hópinn sinn til að tryggja það að Gana steli honum ekki.

Þar eru aftur á móti miðjumenn eins og þeir Declan Rice, Jude Bellingham, Jordan Henderson, Kalvin Phillips og Conor Gallagher sem þýðir að samkeppnin er mikil. Ekki síst ef Trent Alexander-Arnold er einnig í hópnum sem miðjumaður en ekki sem bakvörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×