Katrín tók sérstaklega fram í umræðunni að hún hefði hitt forystufólk og starfsfólk bæði HS Orku og HS Veitna á ferð sinni um Reykjanes í gær. Samskipti hennar við það fólk hefði alla tíð hafa verið til mikillar fyrirmyndar.
Unnin hefðu verið stórvirki á undanförnum dögum til að koma köldu og heitu vatni til íbúa Reykjaness og tryggja raforkuöryggi.
Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar spurði Katrínu hins vegar að því hvort það væri til travala að HS Orka væri í einkaeigu.

Forsætisráðherra sagði ekki nokkurn vafa á því að forystufólk og starfsfólk bæði HS Orku og HS Veitna hefði verið að leggja sig allt fram á undanförnum dögum og vikum til að gera sem best í þágu íbúa á svæðinu.
„Það breytir því hins vegar ekki að hér er um gríðarlega mikilvæga innviði að ræða, orkuinnviði. Það er mín eindregna skoðun, og ég tel að þessir atburðir endurspegli það, að það fer langbest á því að slíkir innviðir séu í almannaeigu. Hvort sem það er veitukerfið eða orkuframleiðslan. Þetta er risastórt öryggismál þar sem skiptir miklu máli að það séu einmitt aldrei neinir aðrir hagsmunir undir en öryggi íbúa. Það á auðvitað að vera stóra verkefnið. Þar með kasta ég engri rýrð á þetta ágæta starfsfólk og forystufólk,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.