Smurverkstæði N1 í Fellsmúla er gjöreyðilagt eftir að eldur kviknaði í því á sjötta tímanum síðdegis í gær. Mikill eldur var í húsinu og mikinn reyk lagði frá því. Lögreglumenn úr tæknideild og rannsóknardeild voru við Fellsmúla í morgun þegar fréttastofu bar þar að garði.
„Lögreglan er búin að tryggja húsnæðið, byrgja fyrir húsnæðið og loka því. Eiginleg rannsókn er ekki farin af stað því ástandið á vettvangi er þannig að það er mjög mikill hiti í húsnæðinu og ekki mögulegt að vera þar innandyra og hefja rannsókn,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er ljóst að það verður ekki gert í dag, það þarf aðeins að bíða á meðan hitinn er að minnka í húsnæðinu.“
Ómögulegt sé að segja út frá hverju eða hvernig kviknaði í.
„Á þessari stundu liggja eldsupptök ekki fyrir en í húsnæðinu voru dekk, hjólbarðar, geymdir og smurverkstæði. Þannig að það hefur brunnið. En við vitum ekkert um eldsupptök á þessari stundu,“ segir Ásmundur.
„Það er gríðarlegt tjón þarna á efri hæðinni þar sem verkstæðin voru og við vitum af því að það er vatnstjón á jarðhæð hússins. Vatn hefur farið þar inn þegar slökkvistarf var í gangi.“
Hann segist ekki vita hvenær fyrirtækin á jarðhæð geta hafið starfsemi að nýju.
„En ég hef upplýsingar um það að við séum búin að aflétta allri lokun á rýmunum sem eru þarna norðan við rýmin sem brunnu, þar sem hjólbarðaverkstæði N1 er. Eigendurnir hafa tekið við þar.“