Fótbolti

Cristiano Ronaldo í bann fyrir klúra lát­bragðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo missir af næsta leik Al Nassr vegna hegðunar sinnar eftir síðasta leik.
Cristiano Ronaldo missir af næsta leik Al Nassr vegna hegðunar sinnar eftir síðasta leik. Getty/ Yasser Bakhsh

Portúgalinn Cristiano Ronaldo var i gær dæmdur í eins leiks bann fyrir „fagnaðarlæti“ sín eftir síðasta leik Al Nassr í sádi-arabísku deildinni.

Ronaldo brást ekki allt of vel við því að stuðningsmenn mótherjanna höfðu sungið nafn Messi hvað eftir annað í leiknum.

Ronaldo og félagar unnu 3-2 sigur á Al Shabab og skoraði hann fyrsta markið úr víti.

Ronaldo sneri sér að stuðningsmönnum Al Shabab í leikslok og fagnaði sigrinum með klúru látbragði þar sem hann hélt hendinni fyrst upp við eyrað sitt en pumpaði síðan hendinni fyrir framan mjöðmina á klámfenginn hátt.

Myndband af atvikinu náðist ekki á sjónvarpsmyndavélar en símamyndbönd úr stúkunni fóru á fulla ferð á samfélagsmiðlum.

Aganefnd sádi-arabíska sambandsins ákvað að taka málið fyrir. Ronaldo fær eins leiks bann og þarf líka að borga sekt og málskostnað Al Shabab. Sektin er upp á tíu þúsund sádi-arabíska ríala en það kostaði tuttugu þúsund ríala að senda inn kvörtunina.

Þrjátíu þúsund ríalar eru rúmar 740 þúsund íslenskar krónur. Það er ekki mikill peningur fyrir Ronaldo.

Ronaldo er markahæstur í deildinni með 22 mörk en Al Nassr er fjórum stigum á eftir toppliði Al Hilal. Liðið er líka komið í átta liða úrslit asísku meistaradeildarinnar sem er keppni sem Al Nassr hefur aldrei unnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×