„Við getum haft skoðun á júróvisjón, fyrirkomulaginu, þátttakendum, lögum, textum og RÚV. Við getum haft skoðun á öllum andskotanum, jafnvel hvort keppandi frá Palestínu taki þátt í keppninni 2024 á Íslandi. En það sem gerðist eftir kosningu á samfélagsmiðlum opinberaði kynþáttaníð á jarðskjálftamælum hjartans. Hvað fær afa, ömmur, ungt fólk og miðaldra fólk til að skrifa óþverra á netið undir nafni og opinbera kalið hjarta? Samkennd, samúð og kærleikur eru ekki bara orð heldur sterkasta meðalið gegn allskonar hatri á þjóðum og kynþáttum og virkar alltaf ef fólk temur sér slíkan þankagang,“ segir Bubbi í færslu á Facebook í gær.
Hann veltir málum fyrir sér.
„Úr hvaða jarðvegi kemur óttinn? Hvílík ótíðindi eru þetta fyrir okkur sem þjóð! Það sem spýttist úr fúlu gini landans í gærkveldi yfir allt netið var áfall fyrir allar hugsandi manneskjur. Síðan voru það gífuryrði og svívirðingar þeirra sem töldu á sig hallað þegar ljóst var að Hera færi áfram, það var nóg af þeim líka.“
Bubbi skýtur á RÚV og segir allt saman hafa verið einhvers konar klúður.
„Þau voru búin að koma sér í glataða stöðu með þessa keppni í ár áður en fyrsta kvöldið fór af stað. Það er æ betur að koma í ljós hvílíkur rasismi grasserar hér á landi. Og gott fólk: það er púðurtunna. Klúður yfirvalda undanfarin ár í flóttamannamálum sem og neikvæðar og stöðugar fréttir af ástandi mála hér á landi, hversu slæmt allt sé orðið, það er kveikurinn. Svo einn daginn mun stíga fram manneskja og hrópa: Ég er með lausnina, kjósið mig - og kveikja í.“