Erlent

Noregs­konungur fær gang­ráð

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 87 ára Haraldur hefur setið á konungsstól frá árinu 1991.
Hinn 87 ára Haraldur hefur setið á konungsstól frá árinu 1991. EPA

Haraldur Noregskonungur mun fá græddan í sig varanlegan gangráð þar sem hjartsláttur hans þykir of hægur.

Norska konungshöllin greindi frá þessu í tilkynningu í gær en Haraldur kom aftur til Noregs á sunnudag eftir að hafa veikst þegar hann var í fríi í Malasíu og var þar fluttur á sjúkrahús vegna veikinda.

Hinn 87 ára konungur var lagður inn á Ríkissjúkrahúsið í Osló eftir komuna til landsins. Í yfirlýsingunni frá konungshöllinni segir að það fari eftir því hvenær konungurinn sé laus við sýkingu hvenær hann geti gengist undir aðgerðina til að fá græddan í sig gangráðinn.

Fyrir heimferðina frá Malasíu fékk Noregskonungur græddan í sig bráðabirgðagangráð.

Ingiríður prinsessa, barnabarn konungs, og Mette-Marit, tengdadóttir hans, eru í hópi þeirra sem heimsóttu konunginn á sjúkrahúsið í Osló í gær.

Ingiríður prinsessa og Mette-Marit koma til Ríkissjúkrahússins í gær. EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×