Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, greinir frá þessu í hlaðvarpinu Gula spjaldið sem er í umsjón Alberts Brynjars Ingasonar. Gylfi Þór hefur verið í endurhæfingu á Spáni frá því að hann komst að samkomulagi um samningsslit við Lyngby í janúar.
Fylkir var í æfingaferð á Spáni í síðustu viku og Gylfi kom inn á þær æfingar. Ragnar segir að Gylfa hafi verið tilkynnt af KSÍ að hann yrði ekki í landsliðshópnum á meðan hann æfði með Fylkismönnum.
„Hann lendir í því þegar hann er að æfa með okkur, að þá kemur í ljós að hann er ekki í landsliðshópnum. Honum er tilkynnt það,“ segir Ragnar Bragi. Þau tíðindi geti hafa stuðlað að því að Gylfi samdi við Val í dag.
„Þá fer hann að endurhugsa hvað hann ætlar að gera. Hann ætlaði að nýta æfingarnar með okkur og svo með Val til að komast á góðu skriði inn í landsleikina og finna svo lið út frá því,“ bætir Ragnar við.
Åge Hareide hafði þegar tjáð Vísi að ólíklegt væri að Gylfi Þór, sem og Aron Einar Gunnarsson, yrðu valdir í hópinn vegna skorts á leikæfingu.
Gylfi Þór skrifaði undir hjá Val í morgun og er með liðinu í æfingaferð á Spáni.
Landsliðshópur Íslands verður valinn á morgun. Liðið mætir Ísrael þann 21. mars í undanúrslitum umspils um sæti á EM.