Fótbolti

„Hareide var kallaður stuðnings­maður Hamas“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hareide er örugglega ekki á leiðinni til Ísraels á næstunni.
Hareide er örugglega ekki á leiðinni til Ísraels á næstunni. vísir/getty

Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur ekki verið vinsælasti maðurinn í Ísrael síðustu daga.

Hann tjáði sig um ástandið á Gasa í samtali við Vísi og það viðtal fór fljótt á flug í erlendum miðlum og þar á meðal í Ísrael. Ísraelskir blaðamenn þjörmuðu svo hraustlega að norska þjálfaranum á blaðamannafundi KSÍ daginn fyrir leikinn við Ísrael.

„Það mætti segja að hann hafi verið pínu klaufi og það var hiti á honum fyrir leik,“ sagði Aron Guðmundsson íþróttafréttamaður í Besta sætinu sem er hlaðvarp íþróttadeildar Sýnar.

„Það var hart sótt að honum en þetta lukkaðist hjá kallinum. Ísraelarnir ekki par sáttir við hann og hann var kallaður stuðningsmaður Hamas í ísraelskum miðlum. Greinin sem ég las var á lengd við mastersritgerð. Allt grafið upp um Hareide og átti að sýna að Noregur og Ísland hötuðu Ísrael. Ég sé hann ekki fyrir mér fara þangað í frí.“

Klippa: Sigur á Ísrael eftir mikinn storm

Valur Páll Eiríksson íþróttafréttamaður hafði einnig gluggað í þessa áhugaverðu grein.

„Var ekki bara pikkað allt sem hann hefur gert vitlaust í þessari grein? Hann hataði Ísrael og átti hann ekki að hata homma líka? Þetta var algjört rugl.“

Umræðan um þetta mál hefst eftir rúmar sjö mínútur hér að ofan. Besta sætið er aðgengilegt á Vísi sem og á öllum hlaðvarpsveitum.


Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×