Fótbolti

„Kitlar Åge örugg­lega að kalla í Gylfa“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gylfi á æfingu með Valsmönnum.
Gylfi á æfingu með Valsmönnum. vísir/vilhelm

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki kallaður í íslenska landsliðið fyrir mikilvæga verkefnið sem það stendur nú í. Liðið er einum leik frá EM-sæti.

Eftir að Ísland tryggði sig inn í úrslitaleik við Úkraínu hafa strax farið á loft raddir að Åge Hareide landsliðsþjálfari eigi að skipta um skoðun og kalla á Gylfa fyrir úrslitaleikinn.

„Það kitlar ábyggilega að kalla í Gylfa en ég hef það samt á tilfinningunni að hann muni standa fast á sínu,“ segir Aron Guðmundsson íþróttafréttamaður í hlaðvarpinu Besta sætið.

„Staðreyndin er hins vegar sú að staðan á miðsvæðinu hjá okkur er mjög brothætt. Gylfi kom inn gegn ÍA um daginn og virkaði ofboðslega ferskur þann tíma sem hann spilaði.“

Klippa: Sigur á Ísrael eftir mikinn storm

Stefán Teitur Þórðarson er kominn til móts við liðið en það eru samt enn óvissa með ákveðna leikmenn.

„Ég held að það verði ekki af þessu. Maður sá samt gegn ÍA að hann var að spila aðra íþrótt en hinir á vellinum með fullri virðingu fyrir þeim,“ bætti Valur Páll Eiríksson íþróttafréttamaður við.

Umræðan um Gylfa hefst eftir 25 mínútur af þættinum. Besta sætið er aðgengilegt á Vísi sem og á öllum hlaðvarpsveitum.


Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×