Erlent

Ís­lendingur flýr rétt­vísina í Kanada

Jón Þór Stefánsson skrifar
Abbotsford í Kanada. Myndin er úr safni.
Abbotsford í Kanada. Myndin er úr safni. Getty

Íslendingur sem er grunaður um brot er varða barnaníðsefni í kanadísku borginni Abbotsford er ekki talinn búa lengur í borginni. Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur honum.

Þetta kemur fram í svari lögreglunnar í Abbotsford við fyrirspurn fréttastofu.

Greint var frá máli Íslendingsins í kanadískum fjölmiðlum í nóvember, og í kjölfarið tóku íslenskir fjölmiðlar málið fyrir.

Hann er grunaður um þrjú brot. Tvö þeirra varða innflutning eða dreifingu á barnaníðsefni í júní árið 2022 og janúar á síðasta ári. Síðasta brotið varðar vörslu á barnaníðsefni í maí á síðasta ári. Öll eiga að hafa átt sér stað í Abbotsforð.

Í svari lögreglunnar vestanhafs við fyrirspurn fréttastofu segir að rannsókn á Íslendingnum hafi hafist í fyrra. Dómstólar hafi fengið gögn málsins og samþykkt að réttarhöld myndu fara fram í því. Þó hefur ekki tekist að hefja dómþingið.

Íslendingurinn var handtekinn á meðan rannsóknin stóð yfir, en látinn laus áður en ákæra var gefin út. Síðan, þegar málið átti að vera tekið fyrir í dómstólum, mætti Íslendingurinn ekki fyrir dóm.

Lögreglan segist telja að hann haldi sig ekki lengur í Abbotsford. Þá hefur verið gefin út handtökuskipun á hendur honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×