Erlent

Öldunga­deildin sam­þykkti 95 milljarða dala að­stoð við Úkraínu, Ísrael og Taí­van

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Chuck Schumer sagði samþykkt pakkans til marks um skuldbindingu Bandaríkjanna til að standa vörð um lýðræðið. Úkraínumenn hafa beðið aðstoðarinnar á meðan Rússar hafa sótt fram.
Chuck Schumer sagði samþykkt pakkans til marks um skuldbindingu Bandaríkjanna til að standa vörð um lýðræðið. Úkraínumenn hafa beðið aðstoðarinnar á meðan Rússar hafa sótt fram. AP/J. Scott Applewhite

Öldungadeild bandaríska þingsins samþykkti í gær að veita samtals 95 milljörðum Bandaríkjadala til Úkraínu, Ísrael og Taívan. Frumvarpið var samþykkt með 79 atkvæðum gegn 18.

„Öldungadeildin sendir í dag skýr skilaboð til alls heimsins; á ögurstundu munu Bandaríkin alltaf standa vörð um lýðræðið,“ sagði Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni.

Hann sagði að Bandaríkin myndu áfram efna loforð sitt um að leiða á hinu alþjóðlega sviði og halda aftur af „óþokkamennum“ á borð við Vladimir Pútín Rússlandsforseta. „Við erum að sýna Pútín að það eru alltaf alvarleg mistök að veðja gegn Bandaríkjunum.“

Eftir miklar málalengingar og tafir samþykkti fulltrúadeild þingsins fjögur frumvörp í síðustu viku, sem fjölluðu um stuðning við Úkraínu, Ísrael og Taívan og tillögur íhaldsmanna um bann við samfélagsmiðlinum Tik Tok, sem er í eigu kínversks fyrirtækis.

Frumvörpin fjögur voru svo sameinuð í einn pakka sem öldungadeildin tók til atkvæðagreiðslu í gær.

Fær Úkraína 60,8 milljarða dala, Ísrael 26,3 milljarða dala og Taívan 8,1 milljarð dala.

Stjórnvöld í Kína hafa hvatt Bandaríkjamenn til að standa við loforð sitt um að styðja ekki „sjálfstætt Taívan“ og að láta af öllum aðgerðum sem stuðla að vopnun þess. Hermálayfirvöld á Taívan segjast munu eiga samráð við Bandaríkin um það hvernig fjármununum verður varið.

Israel Katz, utanríkisráðherra Ísrael, sagði samþykkt pakkans skýr skilaboð til óvina ríkisins.

Ítarlega frétt um málið má finna á Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×