Stuttur tími er eftir af vorþingi og aðeins ellefu þingfundardagar. Næsta vika fer í nefndarfundi og Alþingi fer síðan í frí í vikunni þar á eftir fram yfir forsetakosningar. Um áttatíu stjórnarmál bíða afgreiðslu, mörg þeirra viðamikil og eftir atvikum umdeild. Þar má nefna enn eitt frumvarpiðum breytingar á útlendingalögum.
Halldóra Mogensen þingmaður Pírata og fulltrúi í allsherjar- og menntamálanefnd segir að með útlendingafrumvarpinu verði dvalarleyfi fólks með svo kallaða viðbótarvernd stytt úr fjórum árum í tvö. Þetta fólk þyrfti því stöðugt að endurnýja dvalarleyfin. Þá væru settar frekari skorður á fjölskyldusameiningar og sérstök tengsl umsækjenda við landið. Það virtist vera alger samstaða um það milli stjórnarflokkanna að frumvarpið verði afgreitt nú á vorþingi.

„Maður heyrir það á því hvernig dómsmálaráðherra talar og hvernig þau hafa öll talað opinberlega. Ég hef áhyggjur af því að það sé verið að setja fullan þunga á það mál. Sem er ömurlegt út af því að það er ekki að svara neinni þörf og ekki að koma í veg fyrir nein vandamál. Það er bara verið að skapa meiri vandamál,“segir Halldóra.
Það væri sorglegt að sjá að málið gangi gegn stefnu stjórnvalda um inngildingu. Ef frumvarpið verði að lögum hefði það gríðarlegar afleiðingar fyrir fólk sem væri að leita verndar á Íslandi sem væri þekkt fyrir að virða mannréttindi og væri herlaus og friðsæl þjóð.
Píratar eru ekki heldur sáttir frumvarp um breytingar á lögreglulögum sem fela í sér auknar heimildir til lögreglu. Þær þýði að hægt verði að fylgjast með einstaklingum án þess að grunur liggi fyrir um afbrot.
„Ég hef alveg skilning á því aðlögreglan er að sækjast eftir þessum auknu heimildum. En það sem mér finnst kannski mikilvægast er að okkur skortir sjálfstætt, ytra, óháð eftirlit sem er ekki hluti af framkvæmdavaldinu. Til þess að hafa eftirlit með lögreglunni, að hafa eftirlit með almennum borgurum,“segir Halldóra.
Meðan þetta eftirlit væri ekki til staðar væri mjög vafasamt að veita lögreglunni þessar heimildir. Árleg skýrsla til allsherjar- og menntamálanefndar dugi ekki til. Það þurfi að styrkja óháðan eftirlitsaðila utan framkvæmdavaldsins.
„Og það er ekkert rauntímaeftirlit, það er að segja eftirlit í rauntíma. Eftirlitið er allt eftir á og þá er skaðinn skeður,“segir Halldóra Mogensen.