Fótbolti

Systur­fé­lag Man City komið með sama styrktar­aðila og stóri bróðir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Á næstu leiktíð mun standa Etihad Airways framan á búningum Girona.
Á næstu leiktíð mun standa Etihad Airways framan á búningum Girona. EPA-EFE/David Borrat

Spænska efstu deildarliðið Girona hefur tilkynnt flugfélagið Etihad Airways sem aðal styrktaraðila félagsins næstu þrjú árin. Etihad Airways er einnig framan á treyjum Manchester City en bæði félög eru í eigu City Football Group.

Girona kom allverulega á óvart á nýafstöðnu tímabili og endaði í 3. sæti La Liga á eftir stórliðum Real Madríd og Barcelona. Þetta litla lið sem staðsett er í Katalóníu er þó með öfluga bakhjarla enda City Football Group engin smásmíð.

Girona mun taka þátt í Meistaradeild Evrópu á komandi leiktíð og virðist þegar farið að undirbúa sig. Í dag tilkynnti félagið að næstu þrjú árin mun Etihad Airways vera framan á treyjum félagsins.

„Þetta mikilvæga samband undirstrikar skuldbindingu Etihad við spænskan markað og viljann til að betrumbæta tengsl og samskipti menningarheima,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Eins og áður sagði hefur Etihad Airways verið framan á treyjum Englandsmeistara Man City til fjölda ára. Enska félagið fer skrefinu lengra í sambandi sínu við flugfélagið enda er heimavöllur liðsins nefndur Etihad-völlurinn.

Segja má að City Football Group sé ein stór fjölskylda og nú er Girona komið með sama styrktaraðila og stóri bróðir Man City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×