Erlent

Út­­­nefna Biden raf­­­rænt til að koma honum örugg­­lega á kjör­­seðilinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Joe Biden kemst ekki á kjörseðilinn í Ohio að óbreyttu því landsfundur demókratar þar sem átti að útnefna hann formlega fer fram eftir að framboðsfrestur rennur út.
Joe Biden kemst ekki á kjörseðilinn í Ohio að óbreyttu því landsfundur demókratar þar sem átti að útnefna hann formlega fer fram eftir að framboðsfrestur rennur út. AP/Alex Brandon

Landsnefnd Demókrataflokksins undirbýr nú að útnefna Joe Biden forsetaframbjóðanda flokksins rafrænt áður en landsfundur verður haldinn í ágúst. Demókratar grípa til þessa ráðs til þess að tryggja að Biden verði á kjörseðlinum í öllum ríkjum.

Bandarískir forsetaframbjóðendur eru yfirleitt útnefndir við pomp og prakt á íburðarmiklum landsfundum eftir mánaðalangt forval flokkanna. Demókratar halda sinn landsfund í Chicago í Illinois 19.-22. ágúst í ár. Það er tveimur vikum eftir að frestur til þess að staðfesta framboð rennur út í Ohio.

Sama staða kom upp í Alabama en ríkisþingið þar seinkaði frestinum og ríkisstjórinn, sem er repúblikani, staðfesti þau hratt. Erfiðlegar hefur gengið að rýmka tímamörkin í Ohio þrátt fyrir að ríkisþingið þar hafi áður breytt tímamörkum fyrir frambjóðendur beggja flokka. Pattastaða er á ríkisþinginu, að sögn Washington Post

Mike DeWine, ríkisstjóri og repúblikani, boðaði til aukaþingfundar vegna stöðunnar sem verður haldinn í dag. Engu að síður óttast demókratar að annað og ótengt mál um breytingar á lögum um kosningaframlög sem DeWine setti á dagskrá fundarins eigi eftir að koma í veg fyrir að fresturinn verði rýmkaður.

„Joe Biden verður á kjörseðlinum í Ohio og öllum ríkjunum fimmtíu og repúblikanar í Ohio eru sammála. En þegar til kastanna hefur komið hafa þeir látið hjá liggja að grípa til aðgerða þannig að við demókratar lendum þessari flugvél sjálfir,“ sagði Jaime Harrison, formaður landsnefndar Demókrataflokksins (DNC).

Með því að útnefna forsetaframbjóðanda sinn með rafrænu nafnakalli komi demókratar í veg fyrir að repúblikanar hindri framgang lýðræðisins með vanhæfni eða pólitískum klækjum, að sögn Harrisson.

Ekki er búið að ákveða hvenær útnefningin fer fram en það verður fyrir núverandi framboðsfrest í Ohio, 7. ágúst. Öll landsnefndin þarf að samþykkja fyrirkomulagið. Fyrirkomulagið er sagt verða með svipuðu sniði og árið 2020 þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar varð þess valdandi að landsfundur demókratar fór fram rafrænt, að sögn AP-fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×