Innlent

Eina leiðin inn í Grinda­vík um Suðurstrandarveg og inn­viðir í hættu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Úlfari Lúðvíkssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum líst ekki á blikuna. 
Úlfari Lúðvíkssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum líst ekki á blikuna.  Vísir/Einar

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum líst illa á eldgosið nærri Sundhnúki. Hraunið, sem flætt hefur yfir bæði Grindavíkurveg og Nesveg liggi ofan í görðunum og innviðir séu bersýnilega í hættu. 

Kristján Már Unnarsson fréttamaður hefur verið á svæðinu í dag. Hann ræddi við Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóra á Suðurnesjum í Kvöldfréttum Stöðvar 2. 

„Undirbúningur var góður af hálfu Veðurstofu og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Þannig að við höfðum þarna smá fyrirvara áður en til rýmingar kom,“ segir Úlfar. 

Hann segir flesta þeirra sem rýmdu svæðið hafa verið í Bláa lóninu, milli sjö- og níu hundruð manns. Þá hafi þrír fullorðnir íbúar í bænum neitað að rýma og ætlað að sitja heima en þegar leið á daginn hafi þeir komið sér út úr Grindavík.

Úlfar segir rýminguna sem var framkvæmd á fimmta tímanum til komna vegna óvissuástands sem myndaðist um bæinn sjálfan og nágrenni hans. „Þannig að það var lítið annað að gera en að rýma bæinn algerlega,“ segir Úlfar.

En hvernig metið þið ógnina núna gagnvart innviðum og fólki?

„Mér líst nú ekkert allt of vel á þetta. Hraunið liggur utan í görðunum. Við sjáum það Grindavíkurveginn og líka inni í Svartsengi,“ segir Úlfar og að hraun hafi nú runnið yfir bæði Grindavíkurveg og Nesveg. Því sé eina leiðin inn í bæinn um Suðurstrandarveg.

Þá segir hann innviði bersýnilega í hættu og að vonast sé til þess að varnargarðarnir við Grindavík haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×