Handbolti

Karabatic skaut niður mark­vörðinn í síðasta skoti ferilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Karabatic var tolleraður af liðsfélögum sínum í Paris Saint Germain eftir leikinn.
Nikola Karabatic var tolleraður af liðsfélögum sínum í Paris Saint Germain eftir leikinn. Getty/Catherine Steenkeste

Franski handboltamaðurinn Nikola Karabatic endaði félagsliðaferil sinn í gær með því að verða franskur meistari með Paris Saint Germain.

Þetta var sextándi franski meistaratitill hans og hann vann því alls 22 landstitla á 23 tímabilum sínum í atvinnumennsku. Sextán í Frakklandi, fjóra í Þýskalandi og tvo á Spáni.

Karabatic lék sinn síðasta leik með PSG á móti Pays d'Aix í París í gærkvöldi. Liðið þurfti sigur til að tryggja sér franska titilinn og PSG vann leikinn 39-36.

Karabatic á eftir að spila fleiri handboltaleiki á ferlinum því hann setur ekki skóna upp á hilluna fyrr en eftir Ólympíuleikana í París þar sem hann endar landsliðsferil sinn og um leið handboltaferilinn.

Í leiknum í gærkvöldi fékk Karabatic tækifæri til að skora úr vítakasti 42 sekúndum fyrir leikslok.

Það tókst ekki betur en svo að hann skaut þá niður markvörðinn Denis Serdarevic. Skaut beint í andlit Denis sem steinlá.

Dómarar leiksins sýndu Karabatic þá miskunn og lyftu ekki rauða spjaldinu. Karabatic skaut engu að síður niður markvörðinn í síðasta skoti sínum með félagsliði á ferlinum. Þetta endaði þó ekki með rauðu spjaldi eins og hjá landa hans Zinedine Zidane á HM 2006.

Atvikið má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×