Fótbolti

Fan Zone á hinum mikil­væga leik stelpnanna okkar á þriðju­daginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna hér jöfnunarmarki Glódísar Perlu Viggósdóttur í leiknum á móti Austurríki í gær.
Íslensku stelpurnar fagna hér jöfnunarmarki Glódísar Perlu Viggósdóttur í leiknum á móti Austurríki í gær. Getty/Severin Aichbauer

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta spilar hálfgerðan úrslitaleik um sæti á næsta Evrópumóti þegar Austurríki kemur í heimsókn á þriðjudagskvöldið.

Eftir 1-1 jafntefli í leik sömu liða í Austurríki í gærkvöldi þá fer sigur langt með að tryggja íslensku stelpunum sæti á EM í Sviss 2025. Þetta er riðill en Ísland og Austurríki eru að keppa um það að fylgja Þýskalandi upp úr honum.

Sveindís Jane Jónsdóttir var mjög ógnandi allan leikinn en náði ekki að skora. Hún bætir það vonandi upp í seinni leiknum.Getty/Severin Aichbauer

Tvær efstu þjóðir riðilsins komast beint á EM. Nú er keppni hálfnuð og báðar þjóðir eru með fjögur stig. Austurríki er ofar á fleiri mörkum skoruðum. Íslensku stelpurnar geta með sigri náð þriggja stiga forskoti á austurríska liðið en lokaleikir riðilsins eru síðan í júlí.

Knattspyrnusamband Íslands ætlar líka að hjálpa til við að búa til flotta fjölskyldustemmningu í kringum þennan mikilvæga leik. Leikurinn hefst klukkan 19:30 en fyrir leik verður Fan Zone á vellinum.

DJ Dóra Júlía og Herra Hnetusmjör munu sjá um að keyra upp stemninguna fyrir leik, matarvagnar verða á svæðinu og hægt verður að fá andlitsmálun. Einnig verður landsliðsvarningur til sölu.

Fan Zone-ið opnar klukkan 17:00 og þarf miða á leikinn til að hafa aðgang að því. Það er hægt að kaupa miða á leikinn með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×