Lífið samstarf

Verum vakandi í um­ferðinni í sumar

Umferðarátak 2024
Búast má við mikilli umferð í sumar. Bylgjan, Vísir, Stöð 2, Samgöngustofa og fjöldi samstarfsaðila standa fyrir Umverðarátaki 2024 í sumar.  Mynd/Vilhelm.
Búast má við mikilli umferð í sumar. Bylgjan, Vísir, Stöð 2, Samgöngustofa og fjöldi samstarfsaðila standa fyrir Umverðarátaki 2024 í sumar.  Mynd/Vilhelm.

Enn eitt ferðasumarið er framundan með tilheyrandi ferðalögum landsmanna landshorna á milli. Umferðin á þjóðvegum landsins eykst með hverju árinu, ekki síst vegna fjölgunar ferðamanna, og því hefur aldrei verið nauðsynlegra en nú að vera vel vakandi undir stýri.

Bylgjan, Vísir, Stöð 2, Samgöngustofa, Steypustöðin, Hopp, F.Í.B., Hreyfill, Bifhjólasamtök lýðveldisins og Bílaleiga Akureyrar standa fyrir Umferðarátaki 2024 sem er 10 vikna umferðarátak í sumar.

Gunnar Geir Gunnarsson er deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu.

„Það sem af er á þessu ári hafa tíu manns látist sem er meira en á heilu ári síðustu fimm ár,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu. „Þetta er ekki sú þróun sem við viljum sjá og því brýnt að fara í samstillt átak fyrir sumarið til að sporna við þessari þróun.“

Á árunum 2015-2018 létust 16-18 manns á ári í umferðinni. Næstu ár, 2019-2023 létust 6-9 manns á ári. En skyldi vera einhver sérstök ástæða fyrir þessari fjölgun banaslysa í ár? 

„Við vitum að mikil breyting hefur átt sér stað á umferðinni síðustu kannski fimmtán árin og helstu áskoranir okkar í dag eru þættir sem voru ekki til síðustu aldamót,“ segir Gunnar.

Fyrst nefnir hann farsímana sem eru að valda 12-25% slysa í dag og virðist ekkert lát vera þar á enda er Samgöngustofa núna að standa fyrir herferð gegn slíkri notkun. „Síðan komu ferðamennirnir sem voru óvanir séríslenskum aðstæðum sem eru margar. Við gerum þó meira en flestar þjóðir í að upplýsa þá um sérstöðu íslenskra vega og umferðar enda er sérstaða Íslands líklega meiri en víðast. Svo urðu hjólreiðar mun vinsælli en áður og sjáum við mörg slys á hjólreiðafólki og núna síðast svo auðvitað rafhlaupahjólin en um fjórðungur alvarlega slasaðra árið 2022 var á rafhlaupahjólum.“

Mynd/Vilhelm.

Á síðasta ári fjölgaði slösuðum í bifreið en í fyrsta sinn í langan tíma fækkaði slösuðum gangandi og hjólandi. „Við höfum verið að fjalla ansi mikið um gangandi, hjólandi og rafhlaupahjól í forvarnastarfi okkar síðustu ár en núna er komið tilefni til að fjalla um ökumenn bifreiða. Nú erum við með herferð varðandi farsímanotkun sem við munum örugglega halda á lofti næstu árin en að auki munum við væntanlega á næsta ári fjalla um svefn undir stýri en alvarleg slys af völdum svefns og þreytu eru orðin meira áberandi á síðustu árum.“

Mynd/Vilhelm.

Gunnar hvetur ökumenn til að hafa nokkra mikilvæga þætt í huga fyrir umferðina í sumar.

  • Munum að spenna beltin. Við höfum allt of oft séð slys þar sem fólk fær kannski mar eftir beltið en fólkið sem var ekki í belti kastaðist út og slasaðist alvarlega eða jafnvel lést.
  • Þegar við ökum út á land á farþegi í framsæti að vera aðstoðarbílstjóri. Hann á að sjá um tónlist, loftræstingu, börnin í aftursætinu og síðast en ekki síst að sjá um síma bílstjórans, svara í hann, lesa skilaboð og svara þeim.
  • Akið í samræmi við aðstæður og hámarkshraða. Hámarkshraðinn á við um bestu aðstæður en ef við erum sjálf ekki í góðu ástandi eða vegurinn ekki í góðu ástandi eða veðrið vont þá þurfum við að stilla hraðann eftir því.
  • Hafið farsímann á akstursstillingu svo að við fáum ekki tilkynningar eða hringingu þegar við keyrum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.