Upp­gjör: Ís­land-Austur­ríki 2-1 | Mikil­vægur sigur í bar­áttunni um sæti á EM

Hjörtur Leó Guðjónsson og Árni Jóhannsson skrifa
Íslenska liðið fagnar fyrra marki sínu í kvöld.
Íslenska liðið fagnar fyrra marki sínu í kvöld. Vísir/Diego

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann mikilvægan, og verðskuldaðan, 2-1 sigur er liðið tók á móti Austurríki í undankeppni EM 2025 í kvöld.

Veður og vindar settu svip sinn á leikinn og íslenska liðið hóf leik gegn vindi. Í tvígang var vindurinn nálægt því að skapa hættu fyrir austurríska liðið, en íslensku stelpurnar stóðu af sér mestu ógnina framan af leik.

Lítið var um færi í fyrri hálfleik, en það var Hlín Eiríksdóttir sem fékk fyrsta alvöru færi leiksins. Falleg spilamennska Íslands endaði þá með því að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir renndi boltanum til hliðar þar sem Hlín mætti á ferðinni, tók eina snertingu og skilaði boltanum svo í netið á snyrtilegan hátt, 1-0.

Hlín kemur Íslandi yfir.Vísir/Diego

Íslenska liðið virtist svo ætla að lifa hálfleikinn gegn vindi af, en fékk hins vegar blauta tusku í andlitið þegar fyrirgjöf utan af hægri kanti fann ennið á Eileen Campbell sem kom fljúgandi og skallaði boltann framhjá Fanneyju Ingu Birkisdóttur og jafnaði metin á 44. mínútu og staðan því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Það er svo óhætt að segja að íslenska liðið hafi verið miklu hættulegra í síðari hálfleik. Leikurinn fór að mestu leyti fram á vallarhelmingi austurríska liðsins sem átti í stökustu vandræðum með að komast fram fyrir miðju með íslenska rokið í fangið.

Það varð til þess að íslensku stelpurnar sköpuðu sér nóg af færum. Hættulegustu færin virtust þó vera þegar Ísland fékk hornspyrnur á vinstri kantinum því Karólína Lea setti tvær slíkar í innanverða stöngina.

Karólína Lea er spyrnukona góð.Vísir/Diego

Annað mark Íslands kom hins vegar eftir hornspyrnu af hinum kantinum þegar Karólína sneri boltann út í teig. Hildur Antonsdóttir kom á fleygiferð, sveif hæst allra og stangaði boltann í netið og íslenska liðið var komið með forystu á ný.

Eftir þetta róaðist leikurinn. Íslenska liðið kom sér í nokkur skipti í ágætar stöður, en náði ekki að skapa sér almennileg færi. Að sama skapi fór austurríska liðið að banka á hinum enda vallarins, en þó aldrei fast. 

Niðurstaðan varð því að lokum verðskuldaður 2-1 sigur Íslands sem nú er með sjö stig í öðru sæti riðilsins, þremur stigum meira en Austurríki.

Íslenska liðið fagnar að leik loknum.Vísir/Diego

Atvik leiksins

Það að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hafi ekki skorað úr allavega einni hornspyrnu er í raun ótrúlegt. Með stuttu millibili fékk íslenska liðið tvær hornspyrnur vinstra megin og tækifæri fyrir Karólínu að snúa boltann inn að marki. Karólína var pottþétt að reyna skot úr spyrnunum og endaði boltinn í bæði skiptin í innanverðri stönginni, en inn vildi hann ekki.

Spyrnur Karólínu Leu eru gulls ígildi.Vísir/Diego

Stjörnur og skúrkar

Það eru nokkrar stjörnur í íslenska liðinu sem koma upp í hugann. Markaskorararnir Hlín Eiríksdóttir og Hildur Antonsdóttir geta verið sáttar við sitt í dag eftir tvær flottar afgreiðslur. Karólína Lea er hins vegar líklega aðalstjarna íslenska liðsins með tvær stoðsendingar og öll þau skipti sem hún skapaði hættu með spyrnum sínum.

Hins vegar er erfitt að velja skúrka í íslenska liðinu. Stelpurnar spiluðu leikinn vel í dag og gáfu í raun nánast engin færi á sér.

Dómarinn

Svissneska dómarateymið komst ágætlega frá sínu verkefni í kvöld. Mögulega hefði verið hægt að dæma vítaspyrnu þegar Karólína Lea fór niður innan vítateigs seint í leiknum, en fyrir utan það er lítið út á Désirée Grundbacher og hennar teymi að setja.

Désirée Grundbacher, dómari leiksins.Vísir/Diego

Umgjörð og stemning

Þrátt fyrir hávaðarok og alvöru íslenskar veðuraðstæður á Laugardalsvelli í kvöld var stemningin í stúkunni góð. Rúmlega tvö þúsund manns lögðu leið sína á völlinn og studdu stelpurnar til dáða.

Oft verið betur mætt en stemningin var góð þrátt fyrir leiðinda veður.Vísir/Diego

Tengdar fréttir

„Veit ekki hvað kom yfir mig“

„Við ætluðum okkur að taka þennan sigur í dag og vera með yfirhöndina farandi inn í næsta verkefni,“ sagði Guðrún Arnardóttir eftir sigur 2-1 íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu gegn Austurríki í kvöld.

„Það er draumurinn og við ætlum okkur þangað“

„Mjög mikill léttir en á sama tíma fannst mér við vera að fara vinna þennan leik allan tímann,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, miðvörður, eftir gríðarlega mikilvægan 2-1 sigur Íslands á Austurríki í undankeppni EM kvenna í fótbolta sem fram fer í Sviss á næsta ári.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira