Fótbolti

„Þeir eru bara með gæði fram á við og í öllu liðinu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valgeir Lunddal Friðriksson fékk að berjast við Memphis Depay í kvöld.
Valgeir Lunddal Friðriksson fékk að berjast við Memphis Depay í kvöld. Andre Weening/BSR Agency/Getty Images

„Þetta var vissulega mjög erfitt,“ sagði Valgeir Lunddal Friðriksson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, eftir 4-0 tap gegn Hollendingum í kvöld.

„Okkur líður alls ekki vel. Þeir eru bara með gæði fram á við og í öllu liðinu. Ef við gefum þeim smá pláss þá bara nýta þeir það og þeir gerðu það fjórum sinnum í kvöld. Þetta var bara mjög erfitt, sérstaklega eftir erfiðan Englandsleik. Stutta svarið er bara erfitt,“ bætti Valgeir við.

Valgeir lék í miðverði í kvöld, en það er staða sem hann er ekki vanur að spila. Hann viðurkennir að leikurinn í kvöld hafi ekki verið hans besti á ferlinum.

„Ég hef eiginlega aldrei spilað miðvörð í fjögurra manna línu. Ég hef verið kannski í U21-árs liðinu í þriggja hafsenta línu, en þetta er aðeins öðruvísi og aðeins ýktara. Sem bakvörður var ég oft að ýta aðeins út, en það var fínt að hafa Sverri [Inga Ingason] við hliðina á mér sem var að tala mikið við mig.“

„Þetta er ný staða og ef ég spila hana oftar á ég líklega eftir að verða betri. Ég veit að þetta var ekki fullkominn leikur hjá mér.“

Klippa: Valgeir eftir Hollandsleikinn.

Valgeir var enda ekki að spila gegn neinum nýgræðingum.

„Nei, alls ekki. En eins og ég segi þá á þetta örugglega eftir að verða betra og betra ef ég spila þetta oftar. Ég þarf bara líka að æfa mig. Ég hef eiginlega ekkert verið að æfa þessa stöðu þannig að þetta verður vonandi betra,“ sagði Valgeir að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×