Fótbolti

Í tveggja leikja bann fyrir tæk­linguna ljótu á Gündoğan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sá þýski var heppinn að löppin fór ekki í tvennt.
Sá þýski var heppinn að löppin fór ekki í tvennt. Clive Mason/Getty Images

Ryan Porteous, varnarmaður Skotlands, hefur að öllum líkindum leikið sinn síðasta leik á EM karla í fótbolta. 

Ástæðan er sú að hann hefur verið dæmdur í tveggja leikja bann vegna tæklingar sem hann fór í þegar Skotland tapaði 5-1 fyrir Þýskalandi í fyrstu umferð mótsins.

Skotland gat vart byrjað EM í Þýskalandi mikið verr. Eftir innan við tuttugu mínútur var staðan orðin 2-0 Þýskalandi í vil og í uppbótartíma fyrri hálfleiks fór hinn 25 ára gamli Porteous í galna tæklingu innan eigin vítateigs.

Hann potaði tánni í boltann en lenti af öllu afli á İlkay Gündoğan, miðjumanni Þýskalands. Niðurstaðan rautt spjald og vítaspyrna. Þýskaland skoraði úr vítinu og staðan 3-0 í hálfleik. Á einhvern ótrúlegan hátt skoraði Skotland í síðari hálfleik en Þjóðverjar skoruðu tvö og unnu 5-1 sigur sem var síst of stór.

Vegna rauða spjaldsins var vitað að Porteous yrði ekki með í næsta leik Skotlands, gegn Sviss á miðvikudaginn kemur. Nú hefur hins vegar verið staðfest að leikmaðurinn sé á leið í tveggja leikja bann og missir því af báðum leikjunum sem eftir eru í riðlinum.

Sá fyrri gegn Sviss og sá síðari gegn Ungverjalandi á sunnudaginn 23. júní. Ef marka má úrslit og frammistöðu Skotlands gegn Þýskalandi þá er hægt að draga þá ályktun að liðið fari ekki upp úr riðlinum og þátttöku Porteous á EM 2024 því lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×