Fótbolti

Enduðu fyrir neðan Dani vegna guls spjalds aðstoðarþjálfara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Milivoje Novakovic er aðstoðarþjálfari slóvenska landsliðsins. Hann lék áttatíu leiki fyrir það á sínum tíma. Hér sést hann í baráttu við Raheem Sterling í leik gegn Englands í undankeppni EM í nóvember 2014.
Milivoje Novakovic er aðstoðarþjálfari slóvenska landsliðsins. Hann lék áttatíu leiki fyrir það á sínum tíma. Hér sést hann í baráttu við Raheem Sterling í leik gegn Englands í undankeppni EM í nóvember 2014. getty/Shaun Botterill

Gult spjald sem aðstoðarþjálfari slóvenska fótboltalandsliðsins fékk varð til þess að Slóvenía endaði fyrir neðan Danmörku í C-riðli Evrópumótsins.

Slóvenía gerði markalaust jafntefli við England í lokaleik sínum í C-riðli í gær. Sömu úrslit urðu í leik Danmerkur og Serbíu.

England vann riðilinn með fimm stig en Serbía endaði í fjórða og neðsta sæti hans með tvö stig.

Danmörk og Slóvenía voru svo bæði með þrjú stig. Þau gerðu 1-1 jafntefli í innbyrðis leik sínum, markatala þeirra var sú nákvæmlega sama (2-2) og leikmenn liðanna fengu jafn mörg gul spjöld í riðlakeppninni (6).

Gult spjald sem aðstoðarþjálfari Slóveníu, Milivoje Novakovic, fékk í leiknum gegn Danmörku varð hins vegar til þess að Slóvenar enduðu fyrir neðan Dani. Slóvenska liðið fékk sjö refsistig í riðlakeppninni en það danska sex. 

Í sextán liða úrslitunum mætir Danmörk heimaliði Þýskalands á meðan Slóvenía etur kappi við sigurvegarann í E- eða F-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×