Innlent

„Ó­trú­legt hvað er hægt ef maður hefur hug­mynda­flugið“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Rannsóknin hefur ekki leitt neitt í ljós enn sem komið er.
Rannsóknin hefur ekki leitt neitt í ljós enn sem komið er. Aðsend

Mál gáms sem fluttur var út fyrir bæjarmörk án vitundar eiganda hans og tíu til fjórtán milljóna króna innihaldi þess stolið er til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglu en rannsóknin hefur ekki leitt neitt í ljós enn sem komið er.

Unnar Már Ástþórsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við fréttastofu að rannsóknin sé í gagnaöflunarfasa. 

„Við erum í gagnaöflun núna. Sjá hvort við finnum eitthvað til að upplýsa þetta á einhvern hátt,“ segir hann.

Hann segir málið hið ótrúlegasta og til marks um breytingar í íslensku þjóðfélagi.

„Það er ótrúlegt hvað er hægt ef maður hefur hugmyndaflugið í það. Við erum Íslendingar og erum í litlu samfélagi og treystum fólki kannski meira en við ættum að gera. Við erum bara vön því. En það er margt að breytast í okkar heimi,“ segir Unnar.

Almar Gunnarsson pípulagningameistari og eigandi Landslagna ehf. sagði í samtali við fréttastofu í gær að hann hafi komið á gámastæðið í gær og þar hafi enginn gámur verið. Hann hafi þá komist að því að ótilgreindur og óprúttinn aðili hefði beðið flutningaþjónustuna ET um að flytja gáminn á geymslusvæði á Hólmsheiði. Þar kom hann að gámnum tómum.

„Engar vendingar enn þá. Þetta er á borði rannsóknardeildar og þau eru að skoða þetta. Þau eru að reyna að finna einhver gögn til að geta haldið áfram með rannsóknina á þessu tímabili,“ segir Unnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×