Fótbolti

Cecilía á leið til Inter

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cecilía Rán er á leið til Ítalíu.
Cecilía Rán er á leið til Ítalíu. Vísir/Vilhelm

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir er á leið í ítölsku úrvalsdeildina frá Bayern München.

Það er mbl.is sem greinir frá því að Cecilía sé á leið til Inter frá Bayern. Samkvæmt heimildum mbl.is er um lánssamning að ræða, en Cecilía hefur verið í herbúðum Bayern frá árinu 2021.

Cecilía varði mark varaliðs Bayern tímabilið 2022-2023, en var frá keppni allt síðasta tímabil vegna slæmra meiðsla. Samningur hennar við þýska stórveldið gildir til ársins 2026.

Cecilía hefur aðeins leikið einn leik fyrir aðallið Bayern, en þessi tvítugi markvörður á að baki ellefu leiki fyrir íslenska kvennalandsliðið. 

Cecilía verður annar Íslendingurinn til að spila fyrir Inter. Anna Björk Kristjánsdóttir lék fyrir félagið í rúmt ár frá 2022 til 2023 áður en hún snéri heim og leikur nú með Val.

Inter hafnaði í fimmta sæti ítölsku deildarinnar á síðasta tímabili með 34 stig, 36 stigum á eftir Roma sem varð ítalskur meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×