Fótbolti

Mbappé um Evrópu­mót Frakka: Mis­heppnað mót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé var að sjálfsögðu mjög vonsvikinn eftir tap Frakka í undanúrslitaleik EM í gær.
Kylian Mbappé var að sjálfsögðu mjög vonsvikinn eftir tap Frakka í undanúrslitaleik EM í gær. Getty/Justin Setterfield

Kylian Mbappé viðurkenndi að Evrópumótið 2024 hafi verið misheppnað mót fyrir bæði hann og franska landsliðið.

Frakkar duttu í gær út úr undanúrslitunum eftir 2-1 tap á móti Spáni.

Mbappé lagði upp mark Frakka fyrir Randal Kolo Muani og franska liðið komst í 1-0.

Spánverjar sneru leiknum við með mörkum Lamine Yamal og Dani Olmo á fimm mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleik.

„Keppnin mín. Þetta var erfitt,“ sagði Mbappé við blaðamenn. Hann viðurkenndi að hafa ekki spilað nógu vel á mótinu. ESPN segir frá.

„Þú ert annað hvort góður eða ekki. Ég var ekki góður og við erum á leiðinni heim. Svo einfalt er það,“ sagði Mbappé.

„Þetta var misheppnað mót. Við ætluðum okkur að verða Evrópumeistarar. Metnaður okkar og metnaður minn var að verða Evrópumeistari. Við náðum því ekki og þetta er því misheppnað mót fyrir okkur,“ sagði Mbappé.

„Svona er fótboltinn. Við verðum að halda áfram. Þetta hefur verið langt tímabil. Ég er á leiðinni í frí til að hvíla mig. Það mun gera mér gott og ég mun síðan reyna að koma sterkur til baka úr því,“ sagði Mbappé.

Mbappé náði sér ekki alveg á strik á mótinu. Hann var að glíma við meiðsli fyrir mót og lenti síðan í því að nefbrotna í fyrsta leik mótsins. Hann reyndi að spila með grími en hún truflaði hann. Mbappé sleppti grímunni í leiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×