Körfubolti

34 stig frá Antet­okounmpo dugðu ekki til

Siggeir Ævarsson skrifar
Nickeil Alexander-Walker fær óblíðar móttökur undir körfunni frá Georgios Papagiannis og Giannis Antetokounmpo
Nickeil Alexander-Walker fær óblíðar móttökur undir körfunni frá Georgios Papagiannis og Giannis Antetokounmpo Vísir/EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI

Kanada vann góðan sigur á Grikklandi í körfuknattleik á Ólympíuleikunum í kvöld, Gianns Antetokounmpo fór mikinn í liði Grikklands og skoraði 34 stig en þau dugðu skammt.

Kanadamenn voru komnir með tólf stiga forystu þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka og virtust vera með sigurinn nokkurn veginn í hendi sér. Þá kom 10-0 áhlaup frá Grikkjum og leikurinn orðinn æsispennandi, staðan 80-78 og mínúta til leiksloka.

Nær komust Grikkir ekki og lokatölur leiksins urðu 86-79. Antetokounmpo var langstigahæstur í liði Grikklands með 34 stig en hjá Kanada var RJ Barrett stigahæstur með 23 stig og Shai Gilgeous-Alexander kom næstur með 31.

Alls fóru fjórir körfuboltaleikir fram á Ólympíuleikunum í dag. Frakkland lagði Brasilíu 78-66 þar sem ungstirnið hávaxna, Wembanyama, skoraði 19 stig og tók níu fráköst.

Þýskaland vann öruggan 20 stiga sigur á Japan, 97-77, en Franz Wagner leikmaður Orlando Magic var stigahæstur Þjóðverja og á vellinum með 22 stig.

Þá lagði Ástralía Spán 92-80 en þetta var í fyrsta sinn síðan á Ólympíuleikunum árið 2000 sem Ástralar ná að leggja Spánverja að velli. NBA leikmenn voru fyrirferðarmiklir í stigaskori í þeim leik líkt og í öðrum leikjum dagsins. Santi Aldama, leikmaður Memphis Grizzlies, var stigahæstur Spánverja með 27 stig og Jock Landale, leikmaður Houston Rockets, var stigahæstur Ástrala með 20 stig og níu fráköst. Patty Mills, leikmaður Miami Heat, kom þar rétt á eftir með 19 stig 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×