Körfubolti

Þóttist ekki skilja ensku til að losna við ruslatalið í Garnett

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steven Adams hefur leikið rúmlega sjö hundruð leiki í NBA á ferlinum.
Steven Adams hefur leikið rúmlega sjö hundruð leiki í NBA á ferlinum. getty/Justin Ford

Körfuboltamaðurinn Steven Adams hefur greint frá því hvað hann gerði til að losna við ruslatal Kevins Garnett, eins þekktasta kjaftasksins í sögu NBA.

Á löngum ferli sínum í NBA var Garnett gjarn á að reyna að trufla einbeitingu mótherja sinna með hvers kyns ruslatali (e. trash talk).

Þegar Adams var nýkominn í NBA reyndi Garnett að rífa kjaft við hann en án árangurs. Eins og Adams greindi frá í nýlegu viðtali sagðist hann einfaldlega ekki tala ensku.

„Þetta er staðreyndin. Ég sagði bara: Gaur, engin enska,“ sagði Adams þegar hann lýsti samskiptum sínum við Garnett.

„Sem betur fer sagði hann ekkert eftir þetta. Hann hefði rústað mér. Ég hefði grenjað,“ bætti Adams við.

Adams, sem er frá Nýja-Sjálandi, kom inn í NBA 2013. Fyrstu sjö ár sín í deildinni lék hann með Oklahoma City Thunder, síðan með New Orleans Pelicans, svo með Memphis Grizzlies þangað til í febrúar þegar honum var skipt til Houston Rockets. Hann lék ekkert á síðasta tímabili vegna meiðsla.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×