Íslenski boltinn

„Það var búið að hvísla mér í eyrað að gera þetta“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Úlfa Dís og félagar fagna marki fyrr í sumar
Úlfa Dís og félagar fagna marki fyrr í sumar Vísir/Getty

Stjarnan batt í kvöld enda á sigurhrinu Vals í Bestu deild kvenna. Lauk leiknum með 1-1 jafntefli en Valur hafði leitt leikinn frá 13. mínútu og fram á lokamínútur hans.

Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir skoraði jöfnunarmark Stjörnunnar á 86. mínútu leiksins með laglegu skoti fyrir utan teig. Úlfa Dís var að vonum ánægð með stigið gegn toppliði deildarinnar.

„Við fórum bara inn í leikinn eins og alla aðra leiki og við uppskárum eins og við sáðum. Þetta var bara þolinmæðisvinna.“

Jöfnunarmark Stjörnunnar var af dýrari gerðinni. Úlfa Dís fékk þá boltann úti á hægri kantinum og leitaði inn á völlinn með boltann. Þegar hún nálgaðist teiginn lét hún skotið ríða af með vinstri fæti og söng boltinn í netinu. Úlfa Dís segir Rajko Stanisic, markmannsþjálfara Stjörnunnar, hafa hvíslaði því að sér að láta á það reyna að skjóta af þessu færi.

„Það var búið að hvísla mér í eyrað að gera þetta. Rajko sagði mér að gera þetta og ég gerði þetta bara og þetta virkaði.“

Stjarnan hefur verið á fínu skriði í deildinni upp á síðkastið. Aðspurð hvernig tilfinningin var að koma inn í þennan leik gegn toppliði Vals hafði Úlfa Dís þetta að segja.

„Tilfinningin var bara mjög góð. Við erum með gott „record“ á móti Val á þessum velli þannig að við fórum bara fullar sjálfstraust inn í þennan leik.“

Úlfa Dís lýgur engu þar, en Stjarnan vann báða leikina gegn Val á Samsungvellinum á síðasta tímabili.

Nú eru tveir leikir eftir af hefðbundnu deildarkeppninni áður en deildinni er tvískipt. Stjarnan á tvo krefjandi leiki fram undan. Annars vegar gegn Þór/KA og svo Þrótti sem er í harðri baráttu við Garðbæinga um sæti í efri hluta umspilinu.

„Við ætlum bara að taka einn leik í einu og fókusera bara á næsta leik og mæta í alla leiki eins og við mættum í dag,“ segir Úlfa Dís um framhaldið hjá henni og liðsfélögum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×