Fótbolti

Nóel Atli lagði upp og fór meiddur af velli í endur­komu sigri Ála­borgar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nóel Atli hefur byrjað tímabilið af krafti.
Nóel Atli hefur byrjað tímabilið af krafti. Álaborg

Álaborg sótti mikilvæg þrjú stig til Viborg í dönsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld. Nóel Atli Arnórsson var í byrjunarliði Álaborgar og lagði upp annað mark liðsins. Þá lagði Hlynur Freyr Karlsson einnig upp mark í fjörugum leik í efstu deild Svíþjóðar.

Hinn 17 ára gamli Nóel Atli var að venju í byrjunarliði Álaborgar en þurfti að fara meiddur af velli á 59. mínútu leiksins. Þegar þar var komið við sögu hafði hann lagt upp annað mark gestanna sem lentu undir snemma leiks.

Heimamenn komust yfir á 14. mínútu en gestirnir svöruðu með tveimur mörkum á fjögurra mínúta kafla. Það fyrra kom þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks og Nóel Atli lagði svo upp annað mark liðsins með fyrirgjöf frá vinstri að eins fjórum mínútum síðar.

Heimamenn jöfnuðu þó metin fyrir lok fyrri hálfleik og staðan 2-2 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Á 56. mínútu skoruðu gestirnir það sem reyndist sigurmarkið en þremur mínútum síðar meiddist Nóel Atli og þurfti að fara af velli. Ekki er vitað hvað kom nákvæmlega kom fyrir en leikmaðurinn gat þó gengið af velli.

Mörkin urðu ekki fleiri og lauk leiknum með 3-2 sigri gestanna og Álaborg komið með sex stig að loknum fjórum leikjum.

Í efstu deild Svíþjóðar lagði Hlynur Freyr Karlsson upp þriðja mark Brommapojkarna í 3-3 jafntefli gegn Halmstad á útivelli. Hlynur Freyr lék allan leikinn á miðju gestanna. Hlynur Freyr og félagar eru með 25 stig eftir 18 leiki, sex stigum frá fallsvæðinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×