Fótbolti

Að­sóknar­met möl­brotið í fyrsta leik kvenna­liðs FCK

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sögulegur leikur og sögulegur sigur.
Sögulegur leikur og sögulegur sigur. FCK

FC Kaupmannahöfn hefur loks starfrækt kvennalið og spilaði það sinn fyrsta deildarleik á laugardaginn var. Um var að ræða leik í C-deild dönsku knattspyrnunnar en mætingin var vonum framar og sló öll met þar í landi.

FCK er mikið Íslendingalið karla megin þar sem Orri Steinn Óskarsson og Rúnar Alex Rúnarsson eru leikmenn liðsins. Sem stendur eru engir Íslendingar í kvennaliði félagsins en hver veit nema það breytist á komandi misserum.

Félagið hefur loks starfrækt kvennalið og tekur það þátt í deildar- og bikarkeppni í ár. Þar sem félagið er nýtt af nálinni þá byrjar það í C-deild og því eitthvað í að það geti farið að berjast um meistaratitilinn eða sæti í Meistaradeild Evrópu.

Það breytir því ekki að leikur liðsins um helgina var gríðarlega vel sóttur, í raun svo vel sóttur að aðsóknarmet á kvennaleik í Danmörku var sett.

Hátt í 6000 manns mættu á leik FCK og B73 Slagelse sem gerði hann að best sótta leik í sögu danskrar kvennaknattspyrnu að landsliðinu undanskildu. Hæsta aðsókn á deildarleik í Danmörku fyrir leik laugardagsins var 2204 áhorfendur svo það má með sanni segja að FCK, og B73 Slagelse, hafi mölbrotið metið.

Hvað leikinn varðar þá vann FCK öruggan 3-0 sigur. Kia Brøndum Syndergaard skoraði fyrsta deildarmark kvennaliðs FCK með góðum skalla um miðbik fyrri hálfleik og fagnaði af mikilli innlifun (sjá mynd efst í fréttinni). Það var svo Svava Mørk sem tvöfaldaði forystuna skömmu áður en fyrri hálfleik lauk, staðan 2-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik bætti hin 17 ára gamla Julia Børkop við þriðja marki FCK og þar við sat, lokatölur 3-0 og FCK byrjar tímabilið af krafti en fyrir hafði það unnið 7-1 útisigur á Svoerslev í bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×