Innlent

Skeyta­sendingar ráð­herra til marks um valdþreytu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson
Jóhann Páll Jóhannsson

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar segir ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem nokkrir hafa munnhöggvast opinberlega síðustu daga, nota stöðu sína í eigin þágu til að skapa sér sérstöðu í aðdraganda kosninga.

Síðustu daga hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar staðið í skeytasendingum sín á milli, og ekki í fyrsta sinn. Annars vegar er það milli Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra og formanns VG og Guðlaugs Þórs Þórðarssonar umhverfisráðherra, sem tókust á um orkumál.

Sömuleiðis hafa Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Guðmundur Ingi staðið í skeytasendinghum um útlendingamálin og hvort þau skuli vera forgangsmál innan ríkisstjórnarinnar. Þar segist Guðrún „algjörlega ósammála“ Guðmundi Inga en málaflokkurinn fellur innan valdsviðs þeirra beggja.

„Ráðherrar ríkisstjórnarinnar nota stöðu sína í eigin þágu, til að senda einhver skilaboð og búa sér til sérstöðu í aðdraganda kosninga. Í stað þess að beita kröftum sínum til að þjóna þjóð sinni, eins og þau eru kjörin til að gera,“ segir Jóhann Páll í samtali við fréttastofu. 

Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn í sérkennilega stöðu. 

„Hann er kominn í einhverja stjórnarandstöðu gegn sjálfum sér í útlendingamálum og orkumálum, málaflokkum sem hann hefur farið með í tíu ár eins og allir þekkja, það er auðvitað kómískt.“

Einn hagsmunaaðili sem gleymist

Ríkisstjórn sem geti ekki komið sér saman um forgangsmál ætti að fara frá, segir Jóhann Páll.

„Og gefa valdið aftur í hendur kjósenda. Þessi ríkisstjórn hefði fyrir löngu átt að sjá sóma sinn í því að fara frá. En þau hanga saman á hræðslunni við kjósendur, því miður.“ 

„Það er alltaf einn hagsmunaaðili sem gleymist í þessum skeytasendingum milli ráðherra, og það er þjóðin. Hún á heimtingu á því að hér sé starfhæf ríkisstjórn sem kemur sér saman um forgangsröðun verkefna í þágu samfélagsins sem hún á að þjóna,“ segir Jóhann Páll.

Spurður hvers vegna ráðherrar kjósi að deila opinberlega segir hann: 

„Ráðherrar eru í einhverri stöðutöku hver gagnvart öðrum í stað þess að sinna verkefnunum sem þau voru kjörin til að sinna. Til marks um valdþreytu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×