Erlent

Einn látinn og sex saknað eftir að lystisnekkja sökk við Sikil­ey

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd sem ítalska slökkviliðið birti af hafsvæðinu þar sem snekkjan Bayasian er talin hafa sokkið skammt frá Palermo á Sikiley í morgun.
Mynd sem ítalska slökkviliðið birti af hafsvæðinu þar sem snekkjan Bayasian er talin hafa sokkið skammt frá Palermo á Sikiley í morgun. AP/Ítalska slökkviliðið

Að minnsta kosti einn er látinn og sex manns er enn saknað eftir að lystisnekkja með erlenda ferðamenn um borð sökk í slæmu veðri undan ströndum Sikileyjar á Ítalíu í nótt. Fimmtán manns, þar á meðal ársgömlu barni, var bjargað.

Flak snekkjunnar er fundið á um fimmtíu metra dýpi samkvæmt upplýsingum ítalska slökkviliðsins sem stýrir leitinni. Þyrla og björgunarbátar eru nú á staðnum þar sem snekkjan sökk utan við hafnarbæinn Porticello um klukkan fimm í morgun að staðartíma, að sögn AP-fréttastofunnar.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að fjölþjóðlegur hópur hafi verið um borð í snekkjunni, þar á meðal Bretar. AP hefur eftir staðarfjölmiðli að fólk frá Nýja-Sjálandi, Sri Lanka, Írlandi og Frakklandi hafi einnig verið um borð. Tólf farþegar og tíu manna áhöfn var um borð.

Snekkjan, sem er fimmtíu og sex metra löng, sigldi undir breskum fána. Ítalska ANSA-fréttastofan segir að hún heiti Bayesian. Hún hafi legið við festar í Porticello en látið úr höfn í gærkvöldi.

Reuters-fréttastofan hefur eftir ítölskum fjölmiðlum að einn þeirra sjö sem var saknað sé nú talinn látinn. BBC segir að líkið hafi fundist við flakið. Af þessum sjö voru sex farþegar og einn starfsmaður úr áhöfn snekkjunnar.

Ítalska landgæslan segir að seglbáturinn hafi verið lúxussnekkja og að hún hafi orðið fyrir skýstrók undan ströndum Palermo. Barnið, og sjö aðrir, sem var bjargað er sagt í stöðugu ástandi á sjúkrahúsi.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×