Sport

68 ára alpagreinagoðsögn keppti í stangar­stökki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingemar Stenmark setti keppnisskíðin á hilluna þegar hann var 33 ára gamall.
Ingemar Stenmark setti keppnisskíðin á hilluna þegar hann var 33 ára gamall. Getty/Michael Kappeler

Svíinn Ingemar Stenmark er einn sigursælasti skíðamaður sögunnar en hann hætti að keppa á skíðum í lok níunda áratugar síðustu aldar. Stenmark var meðal keppenda á heimsmeistaramóti í gær en þó í allt annarri íþróttagrein.

Stenmark er orðin 68 ára gamall en hann fæddist í mars 1956. Hann keppti í heimsbikarnum á skíðum á árunum 1974 til 1989. Árangurinn var sögulegur.

Stenmark vann alls 86 heimsbikarmót, nítján heimsbikartitla, fimm heimsmeistaratitla og tvö Ólympíugull á glæsilegum ferli. Hann þykir einn allra besti svigmaður sögunnar.

Í gær var hann mættur á heimsmeistaramót fyrrum hermanna. Keppnin fór að þessu sinni fram í Gautaborg. Áhorfendur höfðu mjög gaman að því að sjá þessa alpagreinagoðsögn reyna fyrir sér á nýjum vettvangi. Hann lét það ekki stoppa sig þótt að sjötugafmælið hans nálgist óðum.

Stenmark keppti þarna í stangarstökki og endaði í níunda sæti eftir að hafa hoppað yfir 3,0 metra. Hann hafði farið fyir 2,70 í fyrstu tilraun og þurfti síðan þrjár tilraunir við 2,85 metra.

Stenmark fékk mikinn stuðning frá áhorfendum og fór á endanum yfir 3,0 metra sem var tveimur sentimetrum frá persónulegu meti. Hann felldi hins vear 3,15 metra þrisvar sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×