Fótbolti

„Ég elska bara að skora“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nikolaj Hansen fagnar í leikslok.
Nikolaj Hansen fagnar í leikslok. Vísir/Diego

Nikolaj Hansen skoraði fyrsta og síðasta mark Víkings er liðið vann afar sannfærandi 5-0 sigur gegn Santa Coloma í fyrri leik liðanna í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld.

„Þetta var bara geggjaður leikur og ég er ótrúlega stoltur af strákunum í liðinu. Við gerðum allt til að vinna þennan leik,“ sagði danski framherjinn í leikslok.

Hann segir að þrátt fyrir að það hafi verið skrýtið að hugsa til þess að liðið hefði getað unnið mun stærri sigur sé 5-0 eitthvað sem hann og hans liðsfélagar hefðu klárlega sætt sig við fyrir leik.

„Já, en ég held að fyrir leik hefðum við alltaf tekið því að vinna 5-0. Þetta var bara fyrri leikurinn og við þurfum bara að sýna aðra góða frammistöðu eftir viku.“

Þá segir Nikolaj að Víkingar megi ekki verða værukærir, þrátt fyrir stórsigur.

„Það er erfitt að segja. Við verðum auðvtað bara að mæta hundrað prósent klárir í seinni leikinn og vinna hann líka. Það er mikilvægt fyrir íslensk lið að vinna leiki í þessari keppni.“

„Við vorum ótrúlega góðir í kvöld og spiluðum vel. Við sköpuðum mikið og skoruðum fimm mörk. Þetta er bara mjög ánægjulegt.“

Hann bætir einnig við að það að skora tvö mörk í kvöld eftir smá meiðsli gefi honum sjálfum mikið.

„Ég var náttúrulega frá vegna meiðsla í einhverjar þrjár vikur og það er gott að vera kominn aftur. Ég elska bara að skora og það er gaman að skora,“ sagði Nikolaj að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×