Fótbolti

Segir strax vera komna pressu á Ten Hag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erik ten Hag og lærisveinar hans í Manchester United máttu þola 2-1 tap gegn Brighton í dag.
Erik ten Hag og lærisveinar hans í Manchester United máttu þola 2-1 tap gegn Brighton í dag. Steve Bardens/Getty Images

Sparkspekingurinn Martin Keown, fyrrverandi leikmaður Arsenal og enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að það se´strax komin pressa á Erik ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United.

Ten Hag og lærisveinar hans máttu þola 2-1 tap er liðið sótti Brighton & Hove Albion heim í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liðið vann 1-0 sigur í fyrstu umferð deildarinnar síðustu helgi, en Joao Pedro tryggði heimamönnum í Brighton sigur í dag með skalla á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Keown, sem á sínum tíma lék 43 leiki fyrir enska landsliðið, segir að Ten Hag þurfi strax að fara að hafa mögulegar áhyggjur af starfi sínu.

„Maður finnur að það er strax komin pressa á Erik ten Hag,“ sagði Keown eftir tap United í dag. „Þetta góða augnablik sem liðið virtist taka með sér eftir sigurinn í opnunarleik tímabilsins virðist vera farið og það er áhyggjuefni.“

Hann segir einnig að mögulega muni tímabil Manchester United standa og falla með því hvernig næsti deildarleikur liðsins fer þegar liðið mætir Liverpool.

„Næsti leikur hjá þeim er gegn Liverpool á heimavelli og við skulum sjá hvernig það fer. Þeir gerðu vel í leikjunum á móti Liverpool á síðasta tímabili og mögulega mun tímabilið í ár hanga á því hvernig þessi leikur fer.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×