Enski boltinn

Beckham fór og kvaddi Sven: Við hlógum og grétum saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham með Sven-Göran Eriksson þegar þeir hittust í síðasta skiptið.
David Beckham með Sven-Göran Eriksson þegar þeir hittust í síðasta skiptið. @davidbeckham

David Beckham, fyrrum fyrirliði enska fótboltalandsliðsins, er meðal þeirra fjölmarga sem hafa minnst Svíans Sven-Görans Eriksson sem lést í gær 76 ára gamall.

Eriksson varð fyrsti erlendi þjálfarinn til að stýra enska landsliðinu þegar hann tók við liðinu árið 2001. Beckham var fyrirliði enska landsliðsins í 57 af 59 leikjum liðsins undir stjórn Sven-Görans.

Það var vitað að Eriksson var að glíma við krabbamein og að hann átti lítið eftir ólifað.

Beckham minntist fyrrum þjálfara síns með því að segja frá því að hann heimsótti hann undir það síðasta.

„Við hlógum, við grétum og við vissum að við værum að kveðjast í síðasta sinn,“ sagði David Beckham í færslu sinni.

„Sven, takk fyrir að vera alltaf sú persóna sem þú varst alltaf. Ástríðufullur, umhyggjusamur, rólegur og sannur heiðursmaður. Ég verð ávallt þér þakklátur fyrir að gera mig að fyrirliða þínum,“ skrifaði Beckham.

„Ég mun aldrei gleyma minningunum frá þessum síðasta degi okkar saman þar sem ég var með þér og fjölskyldu þinni. Takk Sven en síðustu orðin þín til mín voru: Þetta verður allt í lagi,“ skrifaði Beckham.


Tengdar fréttir

Sven-Göran Eriksson látinn

Sænski fótboltaþjálfarinn Sven-Göran Eriksson er látinn, 76 ára að aldri, eftir baráttu við ólæknandi krabbamein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×