Körfubolti

Setti enn eitt metið í nótt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekkert fær Clark stöðvað.
Ekkert fær Clark stöðvað. Justin Casterline/Getty Images

Caitlin Clark heldur áfram að skrá sig á spjöld sögunnar í WNBA-deildinni í körfubolta. Þessi magnaði nýliði leiddi Indiana Fever til sigurs í nótt og leyfir félaginu þar með að dreyma um að komast í úrslitakeppnina í fyrsta sinn síðan 2016.

Nýliðinn Clark hefur stolið senunni í WNBA-deildinni í vetur þrátt fyrir að nýliðar á borð við Angel Reese og Kamilla Cardoso hafi einnig vakið mikla athygli.

Clark skilaði 19 stigum, fimm stoðsendingum og fimm fráköstum í naumum sigri á Connecticut Sun í nótt. Hún hefur þar með skorað 88 þriggja stiga körfur á sínu fyrsta tímabili í WNBA-deildinni, sem er met.

Með leik næturinnar jafnaði Clark met Diönu Taurasi yfir að skora að lágmarki 15 stig og gefa að lágmarki fimm stoðsendingar í 10 leikjum í röð.

Clark hefur hitt úr 88 af 267 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna. Hún er með skotnýtingu upp á 33 prósent en sagði eftir leik að hún vonist til að vera með betri nýtingu þegar fram líða stundir.

Clark og liðsfélagi hennar Kelsey Mitchell (80) eru einu leikmenn deildarinnar sem hafa hitt úr 80 eða fleiri þriggja stiga körfum á leiktíðinni.

Sem stendur er Indiana Fever á góðu skriði en liðið hefur unnið sjö af síðustu 10 leikjum sínum. Liðið situr í 7. sæti deildarinnar þegar mánuður er eftir deildarkeppninni er liðið á góðum stað. Efstu 8 liðin fara í úrslitakeppnina að hefðbundinni deildarkeppni lokinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×