Upp­gjörið: KA - Breiða­blik 2-3 | Kristófer Ingi tryggði Blikum mikil­væg stig

Árni Gísli Magnússon skrifar
Fram - KA Besta Deild Karla Sumar 2024
Fram - KA Besta Deild Karla Sumar 2024 vísir/Diego

Breiðablik er áfram á toppi Bestu deildarinnar eftir 3-2 útsigur gegn KA í dag. Úrslitin þýða að KA á ekki lengur möguleika á að enda í efri hluta deildarinnar þar sem Stjarnan vann sigur í sínum leik.

Blikar komust í tvígang yfir en KA menn jöfnuðu jafnóðum. Það var svo varamaðurinn Kristófer Ingi Kristinsson sem skoraði sigurmark leiksins á 82. mínútu.

Ívar Örn Árnason fékk fyrsta færi leiksins eftir rúmar tólf mínútur þegar hann skallaði boltann rétt yfir á fjærstönginni eftir hornspyrnu.

Það voru þó Blikar sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 14. mínútu. Þeir fengu þá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig hægra megin og Kristinn Jónsson tók fasta aukaspyrnu sem Steinþór Mar varði út í teiginn og Daniel Obbekjær var fyrstur að átta sig, tók frákastið og skilaði boltanum í netið.

KA menn sóttu í sig veðrið eftir markið og voru nokkuð aðgangsharðir án þess þó að skapa sér nein alvöru færi fyrr en á 36. mínútu en Bjarni Aðalsteinsson fékk þá boltann rétt fyrir framan eigin vítateig og brunaði upp nær allan völlinn með Ísak Snær nartandi í hælana á sér allan tímann sem náði ekki að brjóta á honum og kom Bjarni boltanum áfram á Ásgeir Sigurgeirsson sem renndi boltanum inn á teig þar sem hinn markheppni Viðar Örn Kjartansson mætti og skilaði boltanum skemmtilega í markið með hælnum.

Staðan var jöfn í hálfleik en Blikar komu ákveðnir til leiks í upphafi síðari hálfleiks og voru aftur komnir í forystu eftir sex mínútur. Davíð Ingvarsson gerði vel í að keyra upp vinstri kantinn og renna boltanum út á Ísak Snæ sem renndi sér á boltann og kom honum í netið.

KA menn héldu áfram að sækja og fékk Viðar Örn fínt færi eftir 60 mínútur en boltinn í hliðarnetið. Hann var svo á ferðinni tveimur mínútum síðar og þá endaði boltinn í markinu eftir klaufskap í vörn Blika en Anton Ari átti þá sendingu á Daniel Obbekjær sem var of rólegur með boltann sem Ásgeir Sigurgeirsson hirti af honum áður en Daníel Hafsteinsson kom svo boltanum á Viðar Örn sem kláraði færið fagmannlega.

Áfram heldu bæði lið að sækja og var leikurinn hin mesta skemmtun en KA menn virtust heldur líklegri til að sækja sigurinn og fengu nokkur færi til þess.

Það voru þó Blikar sem skoruðu næsta mark sem reyndist sigurmark leiksins. Á 82. mínútu fékk Ísak Snær boltann inn á teig eftir innkast en missti hann til Daníels Hafsteinssonar sem náði ekki að hreinsa boltann lengra en til Kristófer Inga Kristinssonar sem skrúfaði boltann snyrtilega í fjærhornið.

Strax eftir markið fékk Hallgrímur Mar frábært færi til að jafna leikinn en skotið beint á Anton Ara í marki Breiðabliks.

Varamaðurinn Jakob Snær Árnason fékk svo sannkallað dauðafæri á annarri mínútu uppbótartíma en aftur var skotið beint á markmanninn.

Stuttu seinna flautaði Jóhann Ingi Jónsson, dómari, til leiksloka og Blikar fögnuðu sterkum sigri.

Atvik leiksins

Sigurmark leikins sem Kristófer Ingi Kristinsson skorar á 82. mínútu en hann kom inn á sem varamaður á 66. mínútu. Hann fær boltann skyndilega í teignum og gerir frábærlega í að skrúfa boltann í fjærhornið og tryggja Blikum stigin þrjú.

Stjörnur og skúrkar

Ísak Snær Þorvaldsson skoraði í dag og var illviðráðanlegur að vanda. Kristófer Ingi átti góða innkomu af bekknum og skoraði sigurmarkið en Aron Bjarnason og Davíð Ingvarsson áttu einnig góðan leik.

Viðar Örn Kjartansson getur ekki hætt að skora þessa stundina og skoraði í sínum fjórða leik í röð í dag.

Varnarleikur KA var ekki nægilega traustur í dag sem allt liðið verður að taka á sig.

Dómarinn

Fínn dagur hjá dómatríóinu heilt yfir en KA menn vildu fá allavega eina vítaspyrnu og þá sérstaklega á 81. mínútu þegar Viðar Örn fær boltann í markteig eftir innkast og fær mann í bakið sem KA menn vilja meina að hafi sparkað í Viðar. Það er best að hver dæmi fyrir sig þar.

Stemning og umgjörð

Það var vel mætt á völlinn í dag þrátt fyrir að leikurinn hafi skarast á við stórleik Manchester United og Liverpool sem hlýtur að vera hægt að fyrirbyggja en það ef efni í nýja umræðu.

Stemningin fín og ágætis hópur Blika var mættur að sunnan að styðja þá grænklæddu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira