Erlent

Segja Hvaldimír hafa verið skotinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Regina Haug, framkvæmdastjóri One Whale skoðar hræ Hvaldimírs.
Regina Haug, framkvæmdastjóri One Whale skoðar hræ Hvaldimírs. AP/OneWhale

Dýraverndarhópar í Noregi segja að Semjon, sem gjarnan var kallaður Hvaldimír, „njósnamjaldurinn“ frægi, hafi verið skotinn. Forsvarsmenn Noah og One Whale hafa farið fram á að dauðu hvalsins verði rannsakaður af lögreglunni í Noregi.

Hvaldimír rataði í fréttirnar árið 2019 þegar hann fannst undan ströndum Finnmörku. Þá bar hann beisli sem gaf til kynn að hann hafi verið þjálfaður af rússneska sjóhernum og fékk hann því nafnið Hvaldimír. Það hefur reyndar verið dregið í efa síðan þá að mjaldurinn hafi verið þjálfaður til njósna.

Hvaldimír fannst dauður um síðustu helgi og var hræið flutt til skoðunar. Búist er við niðurstöðum úr þeirri skoðun innan þriggja vikna, samkvæmt frétt Guardian. Hvaldimír var fimmtán til tuttugu ára gamall en hvalir af þessari tegund geta orðið allt að sextugir.

Sár eru á hræi Hvaldimírs en mögulega voru þau gerð af fuglum.AP/OneWhale

Aðgerðasinnar frá Noah og One Whale segja að á hræi Hvaldimírs megi finna sár sem bendi til þess að hann hafi verið skotinn ítrekað. Er því haldið fram að dýralæknar og sérfræðingar sem skoðað hafi myndir af hræinu styðji það.

Í frétt NRK segir að lögreglan hafi borist erindi frá forsvarsmönnum samtakanna og málið sé til skoðunar.

Framkvæmdastjóri samtakanna Marine Mind, sem fann hræ Hvaldimírs fljótandi í sjónum á síðasta laugardag, sagði þá að ekki mætti sjá neitt á hræinu sem benti til þess hvernig hvalurinn drapst. Nokkur sár hafi verið á hræinu en einhver þeirra hafi líklega verið gerð af fuglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×