Um­fjöllun: Tinda­stóll - Fylkir 3-0 | Stólarnir halda sæti sínu

Arnar Skúli Atlason skrifar
Úr leik liðanna fyrr í sumar.
Úr leik liðanna fyrr í sumar. vísir/HAG

Tindastóll sigraði Fylki á Sauðárkróki í dag 3-0 í Bestu deild kvenna. Þar með eru Fylkiskonur fallnar aftur niður í Lengjudeildina en Tindastóll heldur áfram í deild þeirra bestu.

Partýið hófst strax á fyrstu mínútu leiksins þegar Laufey Harpa Halldórsdóttir sendi boltann yfir varnarmenn Fylkis og þar var Elísa Bríet Björnsdóttir sloppin í gegn og lagði boltann framhjá markmanni Fylkis og staðan strax orðinn 1-0.

Veislan hélt áfram og Tindastóll komst í 2-0 á 20. mínútu leiksins og uppskriftin var svipuð, löng sending úr vörninni en núna frá Elise Anne Morris og Elísa Bríet aftur mætt ein á móti markmanni Fylkis og núna vippaði hún boltanum yfir markmanninn og Tindastóll í draumalandi.

Tindastóll hélt áfram og Fylkiskonur voru í allskyns vandræðum. Á 27 mínútu leiksins braust Jordyn Rhodes upp vinstri vænginn og eftir klafs í teignum barst boltinn út á Gabrielle Johnson sem smellti honum í samskeytin fjær, óverjandi fyrir markmann Fylkis. Staðan 3-0 fyrir TIndastól.

Þannig stóðu leikar í hálfleik, Tindastóll með öll tök á leiknum.

Seinni hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri endaði, Tindastóll með tök á leiknum og Fylkir að rembast eins og rjúpa við staur að skapa eitthvað þegar þær fóru fram en þeim gekk illa að opna lið Tindastóls.

Tindastóll fékk færi til að bæta við mörkum og björguðu Fylkiskonur tvisvar sinnum á línu í seinni hálfleik og einu sinni bjargaði stöngin gestunum.

Hvorugt liðið skoraði í seinni hálfleik og vann Tindastóll þægilegan sigur í dag. Með sigrinum felldu þær ekki bara Fylkisliðið heldur féll lið Keflavíkur einnig í dag. Tindastóll spilar í deild þeirra bestu á næsta tímabili.

Atvik leiksins

Elísa Bríet skoraði strax eftir 50 sekúndur í dag eftir sendingu frá Laufey Hörpu yfir varnarmenn Fylkis, Halldór Jón sagði fyrir leik að það væri planið að fara á bakvið þær og það tókst í fyrstu sókninni hjá Tindastól

Stjörnur og skúrkar

Stjörnur leiksins: Tindastóls liðið var frábært í dag frá A-Ö, Sóknarmennirnir lúsiðnir allan leikinn, miðjumenn unnu sína bolta og varnarlínan gaf ekki opið færi á sér allan leikinn. Monica Wilhelm varði þau skot sem komu og var örugg í sínum aðgerðum.

Tinna Brá Magnúsdóttir var frábær í markinu hjá Fylki í dag og kom í veg fyrir að þetta færi verr.

Skúrkarnir: Er lið Fylkis sem mætti ekki til leiks í dag og átti mjög dapran leik í 90 mínútur. Vont að hitta á svona slæman dag þegar það er svona mikið undir.

Stemning og umgjörð

313 áhorfendur í dag, fullt af fólki úr Árbænum, mikið af Skagfirðingum, gott veður, fullt af mörkum og frábærar veitingar. Umgjörð sem fær 10 af 10.

Dómarar [8]

Birgir Þór og hans aðstoðarmenn voru hreint frábærir í dag og stigu heldur betur ekki feilspor, best dæmdi leikurinn í sumar á Sauðárkróksvelli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira