Fótbolti

Jóhann Berg: Getum vonandi skemmt á­horf­endum í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson að skóla Anthony Gordon til á Wembley í sumar, í 1-0 sigri Íslands á Englandi.
Jóhann Berg Guðmundsson að skóla Anthony Gordon til á Wembley í sumar, í 1-0 sigri Íslands á Englandi. Getty/Julian Finney

„Ég tel að við séum á góðri vegferð og vonandi getum við sýnt það [í kvöld],“ segir Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, fyrir leikinn við Svartfjallaland í Þjóðadeildinni í kvöld.

Skærasta stjarna Svartfellinga er fyrirliðinn Stevan Jovetic, sem þessa dagana er án félags, en leikmenn liðsins spila víða um Evrópu sem og í Asíu.

„Þeir eru auðvitað bara með flotta leikmenn, fullt af leikmönnum sem við þurfum að passa okkur á. Við þurfum að spila okkar besta leik, og vonandi sjáum við sem flesta. Það er nú ekki mikið að gerast í miðasölunni en það er bara eins og það er,“ segir Jóhann en hægt er að nálgast miða á leikinn á tix.is.

Klippa: Jóhann Berg brattur fyrir leikinn í kvöld

Nokkuð hefur verið um meiðsli hjá íslenska liðinu í aðdraganda leiksins og algjörir lykilmenn helst úr lestinn. Hákon Arnar Haraldsson verður ekkert með liðinu í haust og tveir miðverðir hafa meiðst, þeir Sverrir Ingi Ingason og Brynjar Ingi Bjarnason.

„Það kemur auðvitað bara maður í manns stað og einhver fær tækifæri til að sýna sig og sanna [í dag]. Vonandi tekst það. Við erum búnir að æfa varnarleikinn nokkuð vel þessa vikuna. Auðvitað eru góðir leikmenn sem vantar hjá okkur en eins og alltaf kemur maður í manns stað,“ segir Jóhann sem sjálfur er í toppstandi og byrjaður að spila fyrir Al-Orobah í Sádi-Arabíu.

„Ég hlakka bara til að spila á Laugardalsvellinum og vonandi að ná í góð úrslit fyrir Ísland,“ segir Jóhann.

„Við þurfum auðvitað að vera gríðarlega góðir bæði með og án bolta. Vonandi getum við haldið svolítið í boltann og látið þá hlaupa, og skapað okkur einhver færi. Skemmt áhorfendum á Laugardalsvelli. Það er auðvitað alltaf planið. Við gerum allt til að vinna leikinn.“

Leikur Íslands og Svartfjallalands hefst klukkan 18:45 í kvöld og er í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Ítarleg umfjöllun verður á Vísi.


Tengdar fréttir

Varaleið á HM í Ameríku, fall og umspil í boði

Ísland byrjar nýja leiktíð í Þjóðadeild UEFA í fótbolta í kvöld, með leik við Svartfellinga á Laugardalsvelli. En hvernig virkar keppnin og hvaða áhrif hefur hún á heimsmeistaramótið í Norður-Ameríku 2026?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×