Innlent

Réðst á ferða­mann og rændi hann

Jón Þór Stefánsson skrifar
Nokkuð hefur verið um að vera hjá lögreglunni í miðbæ Reykjavíkur.
Nokkuð hefur verið um að vera hjá lögreglunni í miðbæ Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Einstaklingur réðst á erlendan ferðamann fyrir utan hótel í miðbænum í Reykjavík í nótt og rændi hann. Lögreglan handtók manninn sem viðurkenndi verknaðinn og millifærði því sem hann hafði stolið aftur á ferðamanninn.

Þetta er á meðal þess sem er greint frá í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Annar einstaklingur var handtekinn og vistaður í fangaklefa eftir að hafa verið til vandræða við lögreglustöðina við Hverfisgötu. Í dagbókinni segir að ítrekað hafi verið reynt að fá manninn til að yfirgefa svæðið en án árangurs, og því hafi hann verið handtekinn.

Þá var maður handtekinn í miðbænum vegna þess að hann var með hníf. Sá var fluttur á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af honum og honum sleppt í framhaldinu.

Einn maður var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna líkamsárásar, en ekki er gefið meira upp um árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×