Fótbolti

Af­sakar sig með því að segja Frakka vera í til­rauna­mennsku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, svarar spurningum á blaðamannafundi.
Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, svarar spurningum á blaðamannafundi. Getty/ Franco Arland

Hvað er að gerast hjá Frökkum? Það er ekkert skrýtið að sumir spyrji eftir stórt tap í París fyrir helgi. Landsliðsþjálfarinn hefur ekki áhyggjur og segist vera að prófa sig áfram með nýja leikmenn.

Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, segist stýra franska landsliðinu öðruvísi í þessum Þjóðadeildarleikjum en ef að um leiki í undankeppni HM væri að ræða.

Frakkar steinlágu 3-1 á móti Ítalíu á heimavelli á föstudaginn og mæta Belgum í kvöld.

Deschamps var búinn að ákveða það að nota þessa leiki í tilraunamennsku og að hann muni ekki breyta því þrátt fyrir skellinn.

„Við verðum að nota þessa sex leiki í Þjóðdeildinni í að skoða nýja leikmenn og skipta spilatímanum á milli leikmanna,“ sagði Didier Deschamps á blaðamannafundi. ESPN segir frá.

„Ef að við værum að spila í undankeppni HM þá hefði ég ekki farið þessa leið. Það er á hreinu. Ég valdi þessa leið af því að ég tel að við þurfum að komast í gegnum þetta ferli og ég ætla ekki að breyta um skoðun núna,“ sagði Deschamps.

Deschamps vonast eftir því að lið hans bregðist við tapinu á móti Ítölum á réttan hátt. Þeir komust yfir á móti Ítalíu eftir aðeins tuttugu sekúndur en fengu síðan á sig þrjú mörk.

„Ég get ekki verið ánægður með leikinn á móti Ítalíu ekki frekar en leikmennirnir sjálfir. Á morgun [í kvöld] er annar leikur, aðrar kringumstæður og annars konar lið með sömu skyldur,“ sagði Deschamps.

„Ég hef valið það að gefa sem flestum mínútur. Þrátt fyrir það þá er alltaf pressa á mönnum að spila vel,“ sagði Deschamps.

Leikur Frakka og Belga er sýndur beint á Vodafone Sport í kvöld og hefst útsendingin klukkan 18.35.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×