Fótbolti

Drottning Lengju­deildarinnar upp í þriðja sinn á fjórum árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Murielle Tiernan og Alda Ólafsdóttir voru andstæðingunum Framliðsins afar erfiðar í sumar en saman skoruðu þær 25 mörk í Lengjudeildinni.
Murielle Tiernan og Alda Ólafsdóttir voru andstæðingunum Framliðsins afar erfiðar í sumar en saman skoruðu þær 25 mörk í Lengjudeildinni. @aldaolafs

Murielle Tiernan og félagar í Fram tryggðu sér sæti í Bestu deild kvenna í fótbolta á næsta ári með stórsigri á deildarmeisturum FHL í lokaumferðinni.

Tiernan skoraði þrennu í þessum 5-0 sigri og endaði tímabilið sem þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.

Það má með sanni kalla Tiernan drottningu Lengjudeildarinnar. Þetta er nefnilega í þriðja sinn sem hún fer upp með liði sínu frá árinu 2020.

Tiernan var allt í öllu þegar Tindastólsliðið fór upp, fyrst haustið 2020 og svo aftur haustið 2022.

Tiernan var markahæst í Lengjudeildinni 2020 með 25 mörk í 17 leikjum.

Tiernan var síðan næstmarkahæst í Lengjudeildinni 2022 með 15 mörk í 17 leikjum.

Hún skoraði síðan 13 mörk í 18 leikjum í Lengjudeildinni í sumar.

Samtals hefur hún því skoraði 53 mörk í 52 leikjum á þessum þremur tímabilum sínum í deildinni og á þeim öllum hefur lið hennar komist upp.

Þetta er reyndar í fjórða sinn sem Tiernan fer upp um deild því hún skoraði 24 mörk í 14 leikjum þegar Tindastólsliðið fór upp úr 2. deildinni sumarið 2018. Það sumar var upphafið af upprisu kvennaliðs Stólanna.

Murielle hefur nú hjálpað tveimur félögum að enda mjög langa bið.

Þegar Tindastóll fór upp í Bestu deildina fyrir fjórum árum var það í fyrsta sinn sem Stólarnir komust upp í efstu deild kvenna.

Þetta er síðan í fyrsta sinn frá árinu 1988 sem Fram vinnur sér sæti í efstu deild kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×